Erlent

Pínulítið grunsamlegt?

Óli Tynes skrifar
Mauricio Fernandez borgarstjóri veit lengra en nef hans nær.
Mauricio Fernandez borgarstjóri veit lengra en nef hans nær.

Það hugsaði enginn neitt sérstaklega út í tímasetningu á laugardaginn þegar mexíkóski borgarstjórinn Mauricio Fernandes sagði í ræðu við embættistöku sína að helsti andstæðingur hans Hector Saldana hefði fundist látinn í Mexíkóborg.

Fernandes er borgarstjóri í San Pedro Garza Garcia sem er með ríkari borgum í Mexíkó.

Menn fóru hinsvegar að hugsa þegar í ljós kom að illa útleikið lík Saldanas hafði ekki fundist fyrr en fjórum klukkustundum eftir að borgarstjórinn upplýsti um lát hans. Og tveim sólarhringum áður en lögreglan bar loks kennsl á líkið.

Fjögur lík í bíl

Hector Saldana þótti ekki neitt sérstaklega fínn pappír. Lík hans fannst í bíl í Mexíkóborg. Í bílnum voru einnig lík bróður hans og hálfbróður og svo einhvers fjórða manns.

En þótt hann þætti ekki fínn pappír vildu fjölmiðlar samt fá að vita hvernig Fernandes borgarstjóri vissi að Saldana var dáinn áður en lík hans fannst.

Svar borgarstjórans var; -Stundum eru tilviljanir í lífinu. Það er betra að líta þannig á það.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×