Innlent

Sigmundur Davíð fékk 53 þúsund fyrir hvern fund

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Mynd/Pjetur
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, fékk 52.962 krónur greiddar fyrir hvern fund sem hann mætti á í skipulagsráði borgarinnar frá því í ágúst í fyrra.

Á síðasta fundi skipulagsráð lögðu fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna fram fyrirspurn um mætingar Sigmundar Davíðs, fulltrúa Framsóknarflokksins í ráðinu, frá því hann var kjörinn þangað í ágúst 2008. Þá var óskað eftir upplýsingum um launakjör hans fyrir umræddan tíma og kostnað við að kalla inn varamenn. Vísir fjallaði um málið um helgina.

Í svari sem lagt var fram á fundi ráðsins í gær kemur fram að Sigmundur Davíð hefur mætt á 19 fundi á tímabilinu, verið í leyfi frá fundarstörfum á 7 fundi og verið fjarverandi og kallað út varamann á 19 fundi á tímabilinu.

Aðalmenn í nefndum og ráðum borgarinnar þiggja fastar mánaðargreiðslur, en varamenn fá hins vegar greitt fyrir staka fundi.

„Út frá upplýsingum um laun fyrir setu í skipulagsráði má reikna að Sigmundur Davíð hefur haft 1.006.276 í tekjur fyrir tímabilið. Þar sem hann hefur mætt á 19 fundi gerir það 52.962 kr. fyrir hvern fund," segir í tilkynningu frá Björk Vilhelmsdóttur borgarfulltrúa Samfylkingarinnar.

Fram kemur að viðbótar kostnaður Reykjavíkurborgar við að kalla út varamenn á sama tíma eru rétt tæpar 200 þúsund þar sem greitt er 10.140 krónur til 11.240 fyrir hvern fund.


Tengdar fréttir

Hefur mætt á 50% funda í Skipulagsráði

Framsóknarmaðurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur mætt á 18 af þeim 36 fundum sem hann hefur átt að sitja í Skipulagsráði Reykjavíkurborgar. Alls hafa verið haldnir 43 fundir síðan Sigmundur var kosinn í ráðið þann 21.ágúst 2008 en hann var í leyfi á 7 af þeim fundum. Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar í ráðinu kölluðu eftir yfirliti um fundarsetu Sigmundar á síðasta fundi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×