Innlent

Ekki útséð með síldveiðar í ár

Starfsmenn Hafrannsóknastofnunar eru enn að fara yfir gögn til þess að geta metið stofnstærð og sýkingu í íslensku sumargotssíldinni. Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri nytjastofna hjá Hafró, segist ekki geta svarað því hvenær þeirri vinnu ljúki en eftir það verður ljóst hvort og þá hversu mikið stofnunin mun leggja til að verði veitt.

Hafrannsóknastofnunin lagði til við sjávarútvegsráðherra í júní að miðað við sömu forsendur og í fyrra yrði sett á veiðibann nú. Þorsteinn segir að þrátt fyrir að enn sé sýking í stofninum bendi bergmálsmælingar nú til þess að stofninn sé sambærilegur að stærð og í fyrra. Menn hafi ekki endilega átt von á því og því hljóti það að teljast jákvætt.

Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, segir sýkinguna vissulega skelfilega. Stofnmælingin sýni hins vegar að óþarfi sé að mála skrattann á vegginn. Hún bendi til þess að mælingin í fyrra hafi hugsanlega verið röng. Hann segist vonast til þess að leyft verði að veiða 30 til 50 þúsund tonn í ár. Þrjátíu þúsund tonn myndu skila 2,5 milljörðum króna í þjóðarbúið. Í fyrra voru veitt 130 þúsund tonn og skilaði það ríflega tíu milljörðum í þjóðarbúið. - th




Fleiri fréttir

Sjá meira


×