Enski boltinn

Eggert: Pardew er greinilega sár

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eggert Magnússon, fyrrum stjórnarformaður West Ham.
Eggert Magnússon, fyrrum stjórnarformaður West Ham. Nordic Photos / Getty Images

Eggert Magnússon, fyrrum stjórnarformaður West Ham, svaraði fyrir ásakanir Alan Pardew í samtali við Vísi í dag.

Pardew kom fram í viðtali á Sky-sjónvarpsstöðinni í gær og sagði að hann hafi enga virðingu borið fyrir Eggerti. Jafnframt að það hafi verið það besta sem hefði getað hent félagið að Eggert hafi hætt á sínum tíma.

„Þessi gagnrýni hjá Pardew lýsir honum og hans vandamálum best," sagði Eggert. „Það var ekkert leyndarmál að þegar við komum inn í félagið þá veðjuðum við á hann. Ég bar fulla virðingu fyrir honum og hafði fulla trú á honum sem knattspyrnustjóra."

„En það sem gerði það að verkum að hann var ekki hæfur til að sinna sínu starfi voru þau fjölmörgu vandamál sem hann var að glíma við í sínu einkalífi. Þar að auki tel ég að þessi skjóti frami hafi stigið honum til höfuðs. Hann náði ekki að fóta sig á jörðinni."

Björgólfur Guðmundsson keypti West Ham haustið 2006 í samstarfi við Eggert Magnússon sem um leið varð stjórnarformaður og framkvæmdarstjóri félagsins. Þann 11. desember sama ár var Pardew látinn fara en hann tók skömmu síðar við liði Charlton.

„Það kom svo í ljós að frammistaðan hjá Charlton var ekki glæsileg. Ég sé ekki betur en að Charlton sé í langneðsta sæti B-deildarinnar eftir hann eftir að hafa átt glæsilegan feril í úrvalsdeildinni í mörg ár undir stjórn Alan Curbishley," sagði Eggert en Pardew hætti hjá Charlton undir lok nóvember í haust. Charlton er nú í neðsta sæti ensku B-deildarinnar, fimm stigum á eftir næsta liði.

„Auðvitað er hann bitur og sár út í mig vegna þess að ég lét hann fara - einfaldlega vegna þess að hann þoldi ekki að heyra sannleikann um sín vandamál sem ég sagði honum beint út."

„Hann vill sjálfsagt meina að allt það sem hefur á móti blásið hjá honum frá þeim tíma sér mér að kenna."

Pardew sagði einnig í sama viðtali að Eggert hafi verið með óraunhæfar væntingar gagnvart leikmannakaupum og hafi í raun ekki borið skilning á hvernig sá heimur gekk fyrir sig.

„Þetta er auðvitað bara rugl," sagði Eggert. „Það reyndi aldrei á þetta í okkar samskiptum einfaldlega vegna þess að hann var látinn fara áður en félagaskiptaglugginn opnaði."

„Þessi ummæli um leikmenn og leikmannakaup eru dæmigerð fyrir hann. Ég held að hann ætti sjálfur að líta um öxl varðandi ýmis atriði, eins og komu þeirra Carlos Tevez og Javier Mascherano til félagsins."

„Sannleikurinn er bara sá að hann var ekki í standi til að vera knattspyrnustjóri. Þetta var óumflýjanlegt."

Spurður um önnur mál sem sneru að West Ham á þeim tíma sem Eggert var stjórnarformaður sagðist hann ekki vilja tjá sig um þau að svo stöddu.


Tengdar fréttir

Pardew bar enga virðingu fyrir Eggerti

Alan Pardew, fyrrum knattspyrnustjóri West Ham, segir að það besta sem gat komið fyrir West Ham var að Eggert Magnússon skyldi hætta sem stjórnarformaður félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×