Innlent

Kynlífsþrælkun á Íslandi

Virkur kynlífsmarkaður er á Íslandi sem eykur líkur á ólöglegri vændisstarfsemi og mansali hér á landi, segir fulltrúi Íslands hjá Europol. Hann segir íslensk löggæsluyfirvöld hafa áhyggjur af því að vandinn fari vaxandi.

Talið er að mansal sé mest vaxandi málaflokkur er tengist skipulagðri glæpastarfsemi í löndum Evrópusambandsins. Europol, löggæslustofnun ESB, telur að gera þurfi sérstakt átak í mansalsmálum, en þau eru talin önnur mesta ógn sem stafar af glæpastarfsemi í álfunni - á eftir eiturlyfjum. Í Noregi hafa mansalsmál farið hratt vaxandi síðustu ár og menn hafa af því áhyggjur að þróunin verði sú sama hér á landi.

Talið er að um 800 þúsund manns séu fórnarlömb mansals í heiminum, en fjárhagslegur ávinningur af starfseminni er gíðarlegur. Glæpahópar, nýta sér neyð fólks, en í Evrópu líta þeir á álfuna sem eitt markaðssvæði og ef það er markaður fyrir kynlífsþrælkun þá skaffa þeir það sem þarf.

Íslensk löggæsluyfirvöld hafa tengst alþjóðlegu samstarfi - einkum evrópsku - til að greiða fyrir og auðvelda upplýsingagjöf á milli landa. Þau tengsl hafa meðal annars verið notuð í rannsókn lögreglunnar á Suðurnesjum á mansalsmálinu sem hefur verið til umfjöllunar síðustu daga, en það er hugsanlega hluti af stærra máli. Átta manns eru í gæsluvarðhaldi vegna þess og ýmis gögn eru til skoðunar.

Engar játningar liggja fyrir, en málið er sagt á viðkvæmu stigi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×