Innlent

Ríkisstjórnin mun leiða landsmenn út úr vandanum

Breki Logason skrifar
Jóhanna Sigurðardóttir
Jóhanna Sigurðardóttir

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína á Alþingi fyrir stundu. Hún kom víða við í ræðu sinni og sagði að síðast liðið ár myndi aldrei líða okkur úr minni. Hún sagði hugmyndafræði frjálshyggjunnar hafa hrunið og samfélagið yrði byggt upp aftur á grundvelli jafnaðarstefnunnar og félagshyggjunnar.

Jóhanna sagði að þrátt fyrir þá erfiðu stöðu sem við værum nú í hefðum við staðið okkur betur en svörtustu spár gerðu ráð fyrir. Hún sagði ríkisstjórnina hafa tekið stórar og stefnumarkandi ákvarðanir og víða í stjórnkerfinu hefði verið unnið afrek til þess að halda hlutunum gangandi.

Hún sagði niðurskurðinn sem nú blasir við sársaukafullan og minntist á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um orsakir hrunsins sem yrði kynnt að mánuði liðnum. Hún sagði að niðurstöðum hennar yrði fylgt fast eftir.

„Þeir verða sóttir til saka sem sannað þykir að hafi framið lögbrot. Við munum ekki ná sáttum nema allt verði gert til þess að leiða sannleikann í ljós, þar má ekkert undan draga."

Hún sagði að koma þyrfti í veg fyrir það að sömu klíkur og setið hefðu að kjötkötlunum sætu við þá áfram. Hún sagði þessa kröfu meðal annars snúa að bönkunum og hún sem forsætisráðherra hefði skrifað bréf til forsvarsmanna þeirra. Þar krafðist hún þess að fá svör við því hvort ekki væri farið eftir skráðum reglum og gegnsæju ferli í því hvaða fyrirtæki sem væru tæknilega gjaldþrota væri leyft að ganga. Hún sagði að þarna þyrfti jafnræði að vera tryggt.



Eigum ekki annarra kosta völ


Jóhanna sagði að því miður væri Icesave hluti af uppgjörinu en því miður væri það ekki okkar stærsta vandamál. Tæknilegt gjaldþrot Seðlabanka Íslands væri stærra í sniðum þegar horft væri á áætlaðar raunstærðir. Kostnaður sem því fylgdi kallaði á frekari niðurskurð og skattahækkanir.

Hún sagðist ávalt svara því neitandi þegar hún væri spurð hvort sanngjarnt sé að íslenska þjóðin sé að greiða fyrir mistök meintra fjárglæframanna, og átti þar við Icesave.

„Það er ekki réttlátt að Íslendingar séu látnir gjalda fyrir gallaða löggjöf Evrópusambandsins um fjármálastofnanir. Það er ekki réttlátt að Bretar og Hollendingar hreinsi hendur sínar af því að þeirra eigin fjármálaeftirlit hafi brugðist, ekki síður en okkar. Og það er ekki réttlátt að þetta sé að torvelda samstarfi Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins," sagði Jóhanna.

Hún sagði að við hefðum orðið fórnarlömb þess að þjóðirnar fyrir austan og vestan okkur hafi þurfti að verja gallaðar fjármálareglur til þess að forða áhlaupi á banka víða um heim.

Hún sagði hinsvegar að kalt hagsmunamat sitt væri að við ættum ekki annarra kosta völ en að gera upp Icesave. Hún sagði að ef við fengjum ekki lán frá AGS eða öðrum vinaþjóðum myndi það meðal annars fresta afnámi gjaldeyrishafta, gengið myndi haldast veikt og vaxtalækkanir myndu tefjast. Atvinnuleysi myndi aukast og þar með vandi heimilanna í landinu.

Hún sagðist bera hag fólksins í landinu fyrir brjósti og því væri það niðurstaða sín að við þyrftum að gera upp Icesave. Hún sagði að við þyrftum að beina sjónum okkar fram á veginn í þessum efnum.



Ríkisstjórnin mun leiða okkur úr vandanum


Jóhanna sagði að við þyrftum að draga hratt úr hallarekstri ríkissjóðs og það hefði ekkert með Icesave eða Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að gera. Hún sagði að þeir sem héldu því fram væru að blekkja fólk. Það væri sama hvort við fengjum lán frá AGS eða myndum borga Icesave eða ekki, þá yrðum við að draga hratt úr hallarekstri ríkissjóðs. Hún líkti fjárlagahallanum á ríkissjóði við glímu og spurði hvort við ætluðum að tapa þeirri glímu. „Nei segi ég, ekki á minni vakt."

Að lokum sagði Jóhanna að framundan væru erfiðir tímar framundan en stefnumörkun og áætlanir ríkisstjórnarinnar myndu leiða landsmenn út úr vandanum.

„Við erum að stokka upp stofnanakerfið hjá hinu opinbera sem hefði átt að vera búið að gera fyrir löngu. Við erum að leiðrétta margskonar misrétti sem hefur tíðkast alltof lengi hér á landi, við eigum ekki að bíða þó á móti blási. Þessar umbætur eru nauðsynlegar ef við ætlumst til að hér rísi upp betra samfélag úr rústum hrunsins. Ég er sannfærð um að vilji meginþorra landsmanna er svo, og að því skulum við vinna saman."




Tengdar fréttir

Katrín vill að Íslendingar læri af kreppunni

Það hættulegasta við kreppuna er krafan um skyndilausnir sem snúast flestar um það að selja fjölskyldusilfrið, sagði Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra og varaformaður VG við umræður um stefnuræðu forsætisráðherra. Hún gagnrýndi sölu á hlut Orkuveitu Reykjavíkur til Magma Energy og sagði að Íslendingar mættu ekki missa tækifærið á því að læra af kreppunni.

Bjarni segir að stjórnarkreppa ríki í landinu

Það hefur runnið upp fyrir landsmönnum undanfarna daga og vikur að það er ekki einungis fjármálakreppa á Íslandi heldur einnig stjórnmálakreppa, segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra.

Spuni og ofbeldi í stað rökréttrar umræðu

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins sagði að sú stefnuræða sem forsætisráðherra hefði haldið í kvöld hefði allt eins getað verið flutt fyrir ári síðan. Ástæðu þess sagði hann að ekkert hefði gerst síðan hrunið varð. Sigmundur sagði Samfylkinguna stunda ófrægingarherferð sem hefði kristallast í fréttum Rúv í kvöld.

Birgitta segir Ísland tæknilega gjaldþrota

Íslendingar eru tæknilega séð gjaldþrota, sagði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld. Hún velti fyrir sér hvort rétt væri að íslensk stjórnvöld færu í skuldastöðvun. Ef til vill væri betra að taka skellinn strax og gefast upp. Ef haldið yrði áfram á þeirri leið sem ríkisstjórnin hefur verið myndi vaxtabyrðin sliga þjóðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×