Íslenski boltinn

Magnús Gylfason spáir í spilin fyrir leiki kvöldsins

Topplið KR fær Íslandsmeistarana í heimsókn í kvöld og Magnús spáir því að FH hirði öll stigin
Topplið KR fær Íslandsmeistarana í heimsókn í kvöld og Magnús spáir því að FH hirði öll stigin

Það verður frábær fimmtudagur í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld þar sem sex leikir verða á dagskrá. Um er að ræða fimmtu umferð deildarinnar.

Segja má að allir leikirnir í kvöld séu mjög áhugaverðir fyrir misjafnar sakir, en stórleikurinn er án nokkurs vafa viðureign toppliðs KR og Íslandsmeistara FH í vesturbænum klukkan 20.

Þá verður áhugavert að fylgjast með Reykjavíkurslag gömlu erkifjendanna Fram og Vals og spútniklið Fylkis sem er í öðru sæti deildarinnar sækir nýliða Stjörnunnar heim í Garðabæinn.

ÍBV er enn án stiga á botni deildarinnar og liðið sækir Fjölnir heim í kvöld. Grindvíkingar munu reyna að fylgja eftir ágætum leik á Hlíðarenda í síðustu umferð þegar þeir taka á móti Þrótti á heimavelli og þá verður vafalítið fjör á Kópavogsvellinum þar sem Breiðablik tekur á móti Keflavík.

Allir leikir kvöldsins nema leikur KR og FH hefjast klukkan 19:15. Vísir.is verður á öllum leikjunum í kvöld og verður með umfjallanir og viðtöl eftir alla leiki. Þá verður hægt að fylgjast með gangi mála á Boltavaktinni eins og venjulega.

Vísir sló á þráðinn til Magnúsar Gylfasonar sérfræðings á Stöð 2 Sport og fékk hann til að spá í spilin fyrir leiki kvöldins.

Breiðablik-Keflavík kl. 19:15



"Ég spái því að Breiðablik vinni þennan leik 1-0. Keflavík hefur dottið svakalega niður á útivöllum þó þeir séu með svakalegt lið. Ég held að Breiðablik rífi sig upp úr þessum tveimur töpum og vinni óvæntan 1-0 sigur."

Stjarnan-Fylkir kl. 19:15

"Ég held að Fylkir vinni þennan leik 3-0. Ég held að Stjörnuliðið hafi komið dálítið harkalega niður á jörðina í leiknum gegn FH um daginn og svo eru þeir í miklum markmannsvandræðum. Fylkir hefur byrjað mótið mjög vel og þeir eru bara með hörkulið."

Grindavík-Þróttur kl. 19:15

"Grindavík vinnur þennan leik 2-0. Þróttarar hafa verið rosalegt jójó lið en Grindvíkingar eru komnir með bullandi sjálfstraust eftir góð úrslit gegn Val. Það er allt í gangi hjá Grindvíkingum og ég held að þetta verði öruggur 2-0 sigur hjá þeim."

Fjölnir-ÍBV kl. 19:15

"ÍBV er komið algjörlega upp að vegg og verður að ná í stig. Ég held að þeir verði varnarsinnaðir í kvöld líkt og þeir voru í Garðabænum um daginn, en þar voru þeir hræðilegir fram á við. ÍBV verður að ná í stig ef þetta á ekki að verða verulega slæmt hjá þeim, þannig að ég ætla að spá 0-0 jafntefli. Eyjamenn ná ekki að skora en þeir verða þéttir til baka."

Fram-Valur kl. 19:15

"Þetta er mjög athyglisverður leikur því bæði lið hafa valdið smá vonbrigðum það sem af er og hefðu kosið að vera með fleiri stig. Valsmenn eru komnir upp að vegg og ég ætla að spá 1-1 jafntefli þarna og að bæði lið verði mjög ósátt við úrslitin."

KR-FH kl. 20:00 (beint á Stöð 2 Sport)

"Ég vona mótsins vegna að þetta verði 1-1 jafntefli, en ég held að FH vinni þennan leik 2-1. Maður vill ekki að FH fari að stinga af. Þeir eru komnir á gott ról eftir tap í fyrsta leik og það þarf aðeins að hægja á þeim. Ég vona svo sannarlega að KR nái aðeins að stíga á þá, en sagan segir okkur annað. KR er með fínasta lið í ár en ég segi 2-1 fyrir FH."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×