Innlent

Landsfundur VG settur í dag

Ingimar Karl Helgason skrifar

Nýir frambjóðendur eru áberandi í efstu sætum framboðslista Vinstri Grænna á höfuðborgarsvæðinu. Landsfundur hreyfingarinnar verður settur í Reykjavík eftir hádegið.

Kjördæmisfundir Vinstri Grænna í Kraganum og Reykjavíkurkjördæmunum samþykktu framboðslista flokksins fyrir komandi kosningar í gærkvöldi. Það vekur athygli að í forystusætium tveggja af þremur kjördæmum eru nýir frambjóðendur. Svandís Svavarsdóttir, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Lilja Mósesdóttir, sem ekki hafa áður verið kjörnar á þing.

Í Suðvesturkjördæmi eða Kraganum verður Guðfríður Lilja í fyrsta sæti, Ögmundur Jónasson í öðru, Ólafur Þór Gunnarsson öldrunarlæknir í þriðja sæti og Margrét Pétursdóttir verkakona í því fjórða. Hún hafði sætaskipti við Andrés Magnússon geðlækni, vegna kynjareglna.

Svandís Svavarsdóttir verður í fyrsta sæti listans í Reykjavíkurkjördæmi Suður og Lilja Mósesdóttir hagfræðingur í öðru sæti. Síðan koma Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra og Ari Matthíasson leikari.

Katrín Jakobsdóttir er í fyrsta sæti í Reykjavíkurkjördæmi norður, Árni Þór Sigurðsson þingmaður í öðru, Álfheiður Ingadóttir þingmaður í því þriðja og Auður Lilja Erlingsdóttir, fyrrverandi formaður Ungra vinstri grænna í því fjórða.

Landsfundur vinstri grænna verður settur á Hilton Nordica hóteli í Reykjavík eftir hádegi. Þar verður fjallað um kosningastefnuskrá flokksins, aðgerðir í þágu heimila, auk þess sem lagðar verða fram áætlanir í heilbrigðis- og sjávarútvegsmálum.






















Fleiri fréttir

Sjá meira


×