Innlent

Þorskurinn í góðri uppsveiflu

Jón Kristjánsson
Jón Kristjánsson

Jón Kristjánsson fiskifræðingur furðar sig á málflutningi Hjalta í Jakobsstovu, forstjóra færeysku hafrannsóknastofnunarinnar, á ráðstefnu um fiskveiðistjórnun sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gekkst fyrir í liðinni viku. Á ráðstefnunni, sem Jón kallar sjálfstyrkingarráðstefnu kvótasinna, hélt Hjalti því fram að sóknarmarkskerfi þeirra Færeyinga hafi reynst illa og sérstaklega sæist það á bágu ástandi mikilvægra nytjastofna, ekki síst þorsks.

Jón hefur aflað gagna úr togararalli þeirra Færeyinga þar sem skýrt kemur fram í bráðabirgðaskýrslu að þorskstofninn sé þvert á móti í uppsveiflu og ungfiskur sé að ryðjast inn í stofninn. Nýliðun sé því afar góð, þvert á það sem Hjalti heldur fram.

Hjalti í Jakobsstovu

„Hjalti hefur verið í andstöðu við sóknarmarkskerfið og kannski vegna þess að ekki hefur verið farið að ráðgjöf hans um mikinn niðurskurð,“ segir Jón.

„Hafró í Færeyjum gefur alltaf ráðgjöf eins og þeir væru í kvótakerfi en ekki í blönduðum botnfiskveiðum, eða veiðiráðgjöf fyrir hverja tegund fyrir sig. Þeir eru pirraðir vegna þess að þeim hefur ekki verið hlýtt og hrakfallaspár þeirra þar með afsannaðar.

Lægðin í þorskinum var fyrirséð 2003 og var vegna hungurs en ekki ofveiði því það getur ekki farið saman. Einungis var tímaspursmál hvenær þorskurinn braggaðist og nú er hann á uppleið úr litlum hrygningarstofni, eins og áratuga reynsla er fyrir.“ - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×