Enski boltinn

Mark Hughes fær líklega 623 milljónir í starfslokasamning

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mark Hughes, fyrrum stjóri enska úrvalsdeildarliðsins Manchester City.
Mark Hughes, fyrrum stjóri enska úrvalsdeildarliðsins Manchester City. Mynd/AFP

Mark Hughes, fyrrum stjóri enska úrvalsdeildarliðsins Manchester City, fer ekki alveg tómhentur frá félaginu því það er búist við að hann fái þrjár milljónir punda í starfslokasamning sem er um 623 milljónir íslenskra króna.

Hughes átti 18 mánuði eftir af samningi sínum við City en var látinn víkja fyrir Roberto Mancini um helgina. Mancini gerði þriggja og hálfs árs samning við enska félagið.

Mark Hughes var með 35 til 40 þúsund pund í vikulaun (7,2 til 8,3 milljónir íslenskra króna) og hafði haft sömu laun síðan að hann kom til félagsins frá Blackburn í júní 2008.

Hughes kom fram í enskum fjölmiðlum í gær og sagði að hann hefði ekki vitað af brottrekstri sínum fyrir leikinn á móti Sunderland sem og að hann hefði ekki fengið neina viðvörum um að starf hans væri í einhverri hættu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×