Innlent

Skuldir þjóðarbúsins meiri en haldið var

Heimir Már Pétursson skrifar

Skuldir þjóðarbúsins eru mun meiri en hingað til hefur verið talið eða allt að 200 prósent af landsframleiðslu. Forystumenn ríkisstjórnarinnar segja tillögur frá stjórnarandstöðunni myndu auka enn á vandann.

Á fréttamannafundi ríkisstjórnarinnar í dag fór fjármálaráðherra yfir stöðu þjóðarbúsins og horfur til næstu ára. Rúmum mánuði eftir bankahrunið voru menn að gera ráð fyrir að skuldir þjóðarbúsins yrðu um 80 til 160 prósent af landsframleiðslu.

Samantekt fjármálaráðuneytisins gerir hins vegar ráð fyrir að skuldirnar verði um 200 prósent af landsframleiðslu, sem er með því allra mesta sem þekkist í heiminum, en þá á eftir að gera ráð fyrir skuldum og eignum gömlu bankanna.

Ýmis teikn eru þó á lofti um að staðan muni batna strax í lok þessa árs með lækkun verðbólgu og vaxta að sögn Steingríms. En ný peningamálastefnunefnd tilkynnir um stýrivexti næst komandi fimmtudag, sem viðskiptaráðherra áréttaði að nefndin tæki án milligöngu stjórnvalda. Hann teldi hins vegar öll rök hníga að stýrivaxtalækkun.

Ráðherrarnir voru spurðir út í hugmynd Framsóknarflokksins um flata niðurfærslu húsnæðisskulda um 20 prósent. Viðskiptaráðherra sagði þá leið auka skuldir ríkissjóðs, leiða til enn meiri skattahækkanna og aukins niðurskurðar og setja Íbúðalánasjóð á hausinn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×