Innlent

LEX segir Deloitte misskilja

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Gunnar I. Birgisson var ekki brotlegur við lög að mati LEX.
Gunnar I. Birgisson var ekki brotlegur við lög að mati LEX. Mynd/GVA

LEX lögmannstofa kemst að annarri niðurstöðu en endurskoðunarfyrirtækið Deloitte um viðskipti Kópavogsbæjar og Frjálsrar miðlunar, fyrirtækis í eigu dóttur Gunnars I. Birgissonar. Í nýju lögfræðiáliti LEX kemur fram að Kópavogsbæ bar ekki að bjóða út verk- eða þjónustukaup sem samið var um við Frjálsa miðlun í þeim tilvikum sem um ræðir.

Í minnisblaði LEX sem stílað er á bæjarstjóra Kópavogs kemur fram að Gunnar hafi leitað til LEX lögmannstofu og farið fram á lögfræðilegt álit á ályktunum sem Deloitte hefur dregið um háttsemi hans.

Deloitte hafði komist að þeirri niðurstöðu að viðskipti Kópavogsbæjar við Frjálsa miðlun væru hugsanlegt brot gegn lögum um opinber innkaup þar eð ekki hafi farið fram útboð á verkunum sem um ræðir. Í áliti LEX kemur fram að skilningur Deloitte á lögum um opinber innkaup fái ekki staðist og byggi á rangtúlkunum.

Í álitinu segir að ekki fá staðist að blanda saman og leggja saman fjárhæðir ólíkra verksamninga, heldur þurfi að skoða umfang hvers og eins samnings.

Kópavogsbæ hafi ekki verið skylt að bjóða út þau verk sem Frjáls miðlun tók að sér þar eð umfang hvers verks hafi ekki farið fram úr viðmiðunarfjárhæðum sem kveðið er á um í reglugerð. Viðmiðunarfjárhæðir reglugerðarinnar séu kr. 17.980.000,- vegna vörusamninga og þjónustusamninga en kr. 449.490.000,- vegna verksamninga. Ekki verði séð af gögnum sem lögfræðistofan hafi undir höndum að einstakir samningar hafi náð framangreindum fjárhæðum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×