Íslenski boltinn

Ólafur: Stutt í sigurleikinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari.
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari. Mynd/Stefán
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari tilkynnti í dag landsliðshópinn sem mætir Skotlandi í Glasgow í næstu viku.

„Ég er búinn að prófa ansi marga leikmenn og hef því myndað mér skoðun á stórum hópi leikmanna," sagði Ólafur á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í dag. „Ég var því ekki í neinum vafa þegar ég valdi þennan hóp. Þetta er sá hópur sem ég vildi fá."

Hann sagði að enginn leikmaður sé fjarverandi vegna meiðsla en þó er Stefán Gíslason í leikbanni í leiknum.

„Það eru fáeinir leikmenn sem hafa átt í meiðslum en ég á ekki von á neinum forföllum. Flestir spiluðu þeir um helgina og komust vel frá því."

Hann segist ekki vera búinn að taka endanlega ákvörðun um hvernig hann á að leggja upp leikinn. „En ég hef svo sem áður sagt að aðalmálið sé að varnarleikurinn sé í lagi. Það hefur ekkert breyst hjá mér."

Ísland hefur tapað öllum sínum landsleikjum við Skota til þessa þó svo að margir leikjanna hafa verið jafnir og spennandi.

„Auðvitað væri tap slæmt fyrir okkur nú. Næsti leikur er alltaf mikilvægastur og ég tel að möguleikarnir séu klárlega fyrir hendi í þessum leik. Til þess þarf þó ansi mikið að ganga upp en ég tel að allar forsendur séu fyrir hendi að útkoman verði góð. Við höfum aldrei unnið Skota en það styttist alltaf í sigurleikinn."

„Staðan okkar í riðlinum er fín og myndi sigur í þessum leik setja okkur í enn betri stöðu. En það eru enn margir leikir eftir í riðlinum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×