Enski boltinn

Fullyrt að Ronaldo hafi náð samkomulagi við Real

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Cristiano Ronaldo, leikmaður Manchester United.
Cristiano Ronaldo, leikmaður Manchester United. Nordic Photos / Getty Images

Spænski blaðamaðurinn Guillem Balague heldur því fram á heimasíðu sinni í dag að Christiano Ronaldo hafi náð samkomulagi við Real Madrid um að spila með félaginu á næstu leiktíð.

Ronaldo var í gær kjörinn knattspyrnumaður ársins af Alþjóða knattspyrnusambandinu, FIFA, og kemur því ekki á óvart að sá orðrómur að Ronaldo sé á leið til Spánar, sé kominn fram í enn eitt skiptið.

Balague heldur því fram að Roman Calderon, forseti Real Madrid, hafi náð samkomulagi við Jorge Mendes, umboðsmann Ronaldo, um kaup og kjör hans. Enn eigi þó eftir að sannfæra Manchester United um að selja kappann.

„Mér skilst að Roman Calderon hafi náð samkomulagi við leikmanninn," sagði Balague í samtali við fréttastofu Sky. „Hann ætlar að borga Cristiano Ronaldo tólf milljónir evra og Jorge Mendes átta milljónir. Félagið á svo 85 milljónir - sem gæti hækkað upp í 105 milljónir - til að borga Manchester United."

„Allt þetta þýðir ekki að samkomulag sé í höfn á milli félaganna. Ég hef samt lagt þetta fyrir hátt setta menn hjá Real Madrid sem hafa ekki viljað staðfesta eða neita þessu en segja að ég sé á réttri leið."

Belague segir að um munnlegt samkomulag sé að ræða á milli Mendes og Calderon. En ljóst er að þessar fregnir, ef þær reynast réttar, eiga eftir að reita Alex Ferguson og aðra forráðamenn United til reiði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×