Innlent

Lítill og ræfilslegur þetta haustið

Fossinn Hverfandi.
Fossinn Hverfandi.
Fossinn Hverfandi verður lítill og ræfilslegur í ár, að mati stöðvarstjóra Kárahnjúkavirkjunar, sem spáir því að rennsli hans verði aðeins um einn tuttugasti af því sem var á sama tíma í fyrra.

Yfirfallsfoss Kárahnjúkavirkjunar, fossinn Hverfandi, tók að myndast síðdegis í gær þegar Hálslón fylltist og vatn byrjaði að seitla niður yfirfallsrennu lónsins. Í morgun var rennslið í fossinn komið í tvo til þrjá rúmmetra á sekúndu, að sögn Georgs Pálssonar, stöðvarstjóra Fljótsdalsstöðvar, en til samanburðar má geta þess að í fyrrahaust fór það upp í 500 rúmmetra á sekúndu. Í slíkum ham verður Hverfandi aflmesti foss Evrópu þegar hann fellur meira en tvöhundruð metra niður í Hafrahvammagljúfur.

Georg segir að fossinn verði lítill og ræfislegur í ár og spáir því að rennslið verði mest 20 til 30 rúmmetrar á sekúndu og skýrir það með þurru og köldu veðri að undanförnu. Fossinn myndast einnig óvenju seint í ár eða um þremur vikum seinna en gera mætti ráð fyrir í venjulegu árferði en vatnshæð Hálslóns fór óvenju lágt í vor. Þetta þýðir að aðeins verður hægt að sjá fossinn skamman tíma þetta haustið, sennilega aðeins næstu tvær vikur.

Þeir sem freista þess að rækta Jökulsá á Brú upp sem laxveiðiá geta hins vegar glaðst, því Jökla verður þetta haustið óvenju róleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×