Innlent

Stórhættulegt athæfi í Ölfusi

LAUSAGANGA Alvarleg slys hafa hlotist af lausagöngu stórgripa við og á þjóðvegum.
LAUSAGANGA Alvarleg slys hafa hlotist af lausagöngu stórgripa við og á þjóðvegum.

„Það var opnað fyrir tuttugu og þremur tryppum hjá mér og þeim hleypt út á þjóðveginn, sem er náttúrulega stórhættulegt athæfi."

Þetta segir Hjörtur Bergmann Jónsson á Læk í Ölfusi. Hrossahópurinn sem um ræðir var á afgirtu túni hjá Hirti. Grindarhlið á lömum er milli hólfsins og þjóðvegarins. Það var opnað á föstudagskvöldið og fóru hrossin rakleiðis út á veginn.

„Það kom maður hérna úr sveitinni brunandi hingað heim, þegar hann sá þetta. Við rukum til og komum þeim inn aftur.

Það á enginn erindi þarna um nema heimafólk, svo mér sýnist einna helst að þetta hafi verið gert af kvikindisskap. Þetta er óskiljanlegt athæfi," bætir Hjörtur við og bendir á að svona nokkru fylgi slysahætta bæði fyrir skepnur og fólk. Farið hafi verið að dimma þegar hrossunum var hleypt út og þarna hefði getað orðið stórslys.

„Við sjáum reglulega stórgripi á þjóðveginum, einkum þó hross," segir Frímann Baldursson, varðstjóri í lögreglunni á Selfossi. Hann segir að þetta geti verið allt að tíu gripa hópar. Ástæða þessa sé einkum lélegar girðingar og hlið, en stundum gleymi menn að loka hliðunum á eftir sér. Af þessu hafi hlotist alvarleg slys eins og dæmin sanni. - jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×