Innlent

Mál Alþjóðahússins tekið fyrir í borgarráði á fimmtudag

Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.
Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.
„Borgin verður að ábyrgjast þjónustu við innflytjendur," segir Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar. Hún óskaði eftir því á fundi borgarstjórnar sem lauk á ellefta tímanum í kvöld að mál Alþjóðahússins verði tekið fyrir í borgarráði næstkomandi fimmtudag. Hún segir að Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, hafi orðið verið þeirri beiðni.

Öllum starfsmönnum Alþjóðahússins var sagt upp í gær en ekki náðist að greiða starfsmönnum laun nú um mánaðarmótin. Katla Þorsteinsdóttir, stjórnarformaður Alþjóðahússins, sagði í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins ástæðuna vera vanefndir Reykjavíkurborgar.

Marta Guðjónsdóttir, formaður mannréttindaráðs, sagði hinsvegar í samtali við fréttastofu fyrr í kvöld ástæðuna vera að eftir eigi að leggja fram ársreikninga vegna reksturs Alþjóðahúss. Borgin verði að sýna ábyrgð þar sem um opinbert fé sé að ræða.

„Þetta er alvarlegt mál fyrir fjölmennan hóp borgarbúa sem er sérstaklega illa staddur núna. Rannsóknir sýna að þegar þrengir að minnkar alltaf umburðarlyndi gagnvart innflytjendum. Atvinnuleysi er líka mest meðal innflytjenda og þeir eru oft réttindalausir þannig að ráðgjafarhlutinn sem Reykjavíkurborg er búin að kaupa af Alþjóðahúsi er mjög mikilvægur núna," segir Björk.

Björk á von á því að borgarráð fái upplýsingar um hvað hafi verið ábótavant á fundi sínum á fimmtudaginn. Ráðið verði að vinna leiðir til að bregðast við vandanum. „Við erum opinberir aðilar og verðum að ábyrgjast þjónustu við þennan hóp."

14 starfsmenn starfa í Alþjóðahúsinu. Þeir sinna margvíslegum verkefnum við að þjónusta útlendinga sem búa hér á landi. Nokkrir þeirra sinna ráðgjöf til nýbúa samkvæmt þjónustusamningi við Reykjavíkurborg.


Tengdar fréttir

Alþjóðahúsið hefur ekki uppfyllt samkomulag við borgina

„Það er mjög einkennilegt að þau skuli vera að ýja að það sé verið að segja upp 14 starfsmönnum af því að það vantar fimm milljónir af 20. Mér sýnist ekki vera mikill rekstrargrundvöllur fyrir Alþjóðahúsinu ef að það þarf að segja upp öllu starfsfólkinu þegar vantar fimm milljónir," segir Marta Guðjónsdóttir, varaborgarfulltrúi og formaður mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar, í samtali við fréttastofu. Hún segir Alþjóðahúsið ekki hafa uppfyllt samkomulag við borgina.

Öllu starfsfólki Alþjóðahússins sagt upp

Framtíð Alþjóðahúss er í uppnámi eftir að öllum starfsmönnum var sagt upp í gær. Fjarhagsstaðan er það slæm ekki náðist að greiða starfsmönnum laun nú um mánaðarmótin. Frá þessu var greint í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×