Innlent

Alþjóðahúsið hefur ekki uppfyllt samkomulag við borgina

Marta Guðjónsdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er formaður mannréttindaráðs.
Marta Guðjónsdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er formaður mannréttindaráðs. Mynd/GVA
„Það er mjög einkennilegt að þau skuli vera að ýja að það sé verið að segja upp 14 starfsmönnum af því að það vantar fimm milljónir af 20. Mér sýnist ekki vera mikill rekstrargrundvöllur fyrir Alþjóðahúsið ef að það þarf að segja upp öllu starfsfólkinu þegar vantar fimm milljónir," segir Marta Guðjónsdóttir, varaborgarfulltrúi og formaður mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar, í samtali við fréttastofu. Hún segir Alþjóðahúsið ekki hafa uppfyllt þjónustusamning við borgina.

Öllum starfsmönnum Alþjóðahússins var sagt upp í gær en ekki náðist að greiða starfsmönnum laun nú um mánaðarmótin. Katla Þorsteinsdóttir, stjórnarformaður Alþjóðahússins, sagði í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins ástæðuna vera vanefndir Reykjavíkurborgar.

Marta segir aftur á móti ástæðuna vera að eftir sé að leggja fram ársreikninga vegna reksturs Alþjóðahúss. „Málið snýst um að þau hafa ekki uppfyllt þennan þjónustusamning. Að sjálfsögðu verðum við að sýna ábyrgð þegar um opinbert fé er að ræða og getum ekki greitt út þessar fimm milljónir fyrr en þau hafa uppfyllt þennan samning."

Reykjavíkurborg hefur greitt 15 milljónir af 20 samkvæmt þjónustusamninginum, samkvæmt Mörtu. Næsta greiðsla hafi átti að vera afgreitt í september.

Starfsemi hússins skiptast í tvo hluta og segir Marta að þjónustusamningur Reykjavíkurborgar snúi að þeim hluta sem hefur með ráðgjöf til nýbúa að gera. Hinn hlutinn sé íslenskukennsla og túlkaþjónusta sem sé rekinn af einkafyrirtæki sem sé á samkeppnismarkaði.

Marta segir að fáeinir starfsmenn sinni ráðgjöf til nýbúa og hún undrist af hverju segja þurfi upp öllu starfsfólkinu þegar uppá vanti fimm milljónir sem fyrirhugað var að borgin myndi greiða í september samkvæmt þjónustusamningnum.

Aðspurð hvað gerist næst segir Marta: „Það gerist ekkert annað hjá okkur fyrr en þau uppfylla skilyrði samningsins."

14 starfsmenn starfa í Alþjóðahúsinu. Þeir sinna margvíslegum verkefnum við að þjónusta útlendinga sem búa hér á landi.


Tengdar fréttir

Öllu starfsfólki Alþjóðahússins sagt upp

Framtíð Alþjóðahúss er í uppnámi eftir að öllum starfsmönnum var sagt upp í gær. Fjarhagsstaðan er það slæm ekki náðist að greiða starfsmönnum laun nú um mánaðarmótin. Frá þessu var greint í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×