Íslenski boltinn

Valur Fannar: Það var ekki nógu mikill kraftur í okkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valur Fannar Gíslason, fyrirliði Fylkis.
Valur Fannar Gíslason, fyrirliði Fylkis. Mynd/Anton

„Við vildum að sjálfsögðu fá fleiri stig út úr þessum leik en við sýndum ekki að við ættum það skilið. Við vorum aðeins á hælunum í öllum leiknum fyrir utan síðustu tíu mínúturnar þegar við vorum komnir upp við vegg og gáfum allt í þetta," sagði Valur Fannar Gíslason, fyrirliði Fylkis eftir 1-0 tap Árbæjarliðsins í Keflavík í kvöld.

„Ef við hefðum gefið allt í þetta allan leikinn eins og við höfum gert hingað til í sumar þá held ég að við hefðum náð öðrum úrslitum. Það var ekki nógu mikill kraftur í okkur," sagði Valur Fannar.

„Við vorum ekki að ógna þeim mikið og ég held að þetta hafi verið sanngjarnt. Við vorum ekki nógu beittir og þeir uppskáru eins og þeir sáðu," sagði Valur hreinskilinn eftir leikinn.

„Þetta tap þýðir voða lítið fyrir okkur og það er leikur strax aftur á mánudaginn. Þú vinnur og tapar í þessu en við erum hundfúlir og aðallega út í okkur sjálfa," sagði Valur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×