Innlent

Vilja stýra Borgarahreyfingunni

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Gunnar Sigurðsson.
Gunnar Sigurðsson. Mynd/Haraldur Jónasson
Hópur fólks hefur tilkynnt um framboð í stjórn Borgarahreyfingarinnar en landsfundur hreyfingarinnar fer fram laugardaginn 12. september. Í hópnum eru meðal annars Valgeir Skagfjörð, varaþingmaður, og Gunnar Sigurðsson, leikstjóri og einn af stofnendum hreyfingarinnar.

Eftir miklar deilur í Borgarahreyfingunni um persónur og málefni klauf Þráinn Bertelsson þingmaður sig úr flokknum, framkvæmdastjóri þingflokksins lét af störfum og formaður stjórnar Borgarahreyfingarinnar sagði skilið við flokkinn.

Í yfirlýsingu frá hópnum sem stendur að framboðinu segir: „Slagorðið "þjóðin á þing" er engin tilviljun. Það var valið vegna þess að vildum að þjóðin fengi rödd inni á Alþingi Íslendinga."

Þinghópur hreyfingarinnar hafi verið hugsaður sem brú frá grasrótinni inn á Alþingi. Að þeirra mati hefur það mistekist.

„Við komum fram sem hópur og gerum okkur vonir um að fá stuðning sem slíkur. Engu að síður bjóðum við okkur hvert og eitt fram til starfsins sem einstaklingar."

Eftirtaldir standa að yfirlýsingunni: Ásthildur Jónsdóttir, Bjarki Hilmarsson, Björg Sigurðardóttir, Guðmundur Andri Skúlason, Gunnar Gunnarsson, Gunnar Sigurðsson, Heiða B. Heiðarsdóttir, Ingifríður Ragna Skúladóttir, Jón Kr. Arnarson, Lilja Skaftadóttir, Sigurður Hr. Sigurðsson og Valgeir Skagfjörð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×