Innlent

Hústökufólkið snýr aftur að Vatnsstíg

Lögregla rýmdi húsið síðast þegar fólkið hafði opnað Fríbúðina að Vatnsstíg.
Lögregla rýmdi húsið síðast þegar fólkið hafði opnað Fríbúðina að Vatnsstíg.

Núna í hádeginu opnaði Fríbúðin svokallaða við Vatnsstíg 4 í Reykjavík en hún var fyrst opnuð þann 17.apríl. Húsið var rýmt af lögreglu fimm dögum síðar. Í tilkynningu frá hópnum segir að nú taki þau rýmið aftur í sínar hendur og opni búðina á ný. Tilefni þess er að í dag, 6.maí, er alþjóðlegur samstöðudagur með Rozbrat, gamalgrónu tökuhúsi í Poznan, Póllandi.

„Lengi vel hafa þeir sem standa að Rozbrat átt í hættu að missa húsið og nú er hættan raunveruleg. Enduropnun fríbúðarinnar er yfirlýsing. Við sýnum fólkinu í Póllandi samstöðu. Þau vilja verja heimili sitt og félagsrými frá eyðileggingu af hálfu yfirvalda. Hún er einnig yfirlýsing um staðfestu og andstöðu. Við munum ekki lúta í lægra haldi! Borgin er fyrir fólkið! EKKI kapítalíska elítu: auðjöfra, bankakakkalakka, fjárfesta og verktaka," segir í yfirlýsingu frá hópnum.

Þá segir að Fríbúð sé staður þar sem hægt er að þiggja veraldlega hluti. Staður þar sem allir eru velkomnir til að taka þátt. Þar eru engir peningar í spilinu.

Í samtali við fréttastofu segist lögreglan vita af málinu og fylgist með. Þá segir lögreglan að hún ætli að hafa samband við eiganda hússins til þess að athuga hvort fólkið sé í húsinu á hans vegum. Ef svo sé ekki verði reynt að leysa málið með friðsamlegum hætti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×