Íslenski boltinn

Pólskur kranamaður á línunni í Eyjum í kvöld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images

2. umferð Pepsi-deildar karla hefst í kvöld með leik ÍBV og Breiðabliks. Athygli vekur að annar aðstoðarmaður Kristinn Jakobssonar dómara er hinn pólski Tomasz Jacek Napierajczyk.

Tomasz er pólskur og kom hingað til lands til að vinna í byggingariðnaði. Hefur hann starfað sem kranamaður hér á landi.

Hann hafði starfað sem dómari í heimalandi sínu og fyrir ári síðan kom hann sér í samband við Knattspyrnusamband Íslands í þeim tilgangi til að fá að starfa við dómgæslu hér á landi.

„Við tókum honum auðvitað opnum örmum," sagði Gylfi Þór Orrason, varaformaður KSÍ og formaður dómaranefndar sambandsins. Tomasz hafði með sér plögg frá pólska knattspyrnusambandinu sem sýndu að hann hafði unnið sig upp í þriðja styrkleikaflokk dómara þar í landi.

„Hann er sérhæfður aðstoðardómari og hafði starfað mikið sem slíkur í heimalandi sínu. Við settum hann strax á leiki og starfaði hann mikið fyrir KSÍ síðasta sumar. Var það einróma álit manna að þarna væri á ferð mjög frambærilegur dómari," sagði Gylfi.

Tomasz var því fluttur upp í flokk C-dómara nú fyrir stuttu og starfar í kvöld í fyrsta sinn á leik í efstu deild. Kristinn Jakobsson verður aðaldómari leiksins. Hann talar mjög góða ensku og hafa því samskipti hans við aðra dómara ekki verið vandkvæðum háð.

„Tomasz hefur lagt sig gríðarlega mikið fram á æfingum dómara í vetur og er greinilega afar metnaðargjarn. Við viljum með þessu sýna fram á að þeir sem nenna að leggja sig fram uppskera eftir því. Við erum stoltir af því að fá hann til starfa."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×