Erlent

Leifar ævaforns samfélags í Taiwan

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Fornleifafræðingar í Taiwan hafa uppgötvað leifar af allt að 20.000 ára gömlu menningarsamfélagi.

Þarna er tvímælalaust um að ræða elsta samfélag sem uppi hefur verið á Taiwan en eyjan er um 180 kílómetra suðaustur af Kína. Af gögnum að dæma hefur fólkið verið skylt hinum lágvöxnu pygmyum sem eru ekki bundnir við neitt eitt landsvæði. Þess í stað skilgreina mannfræðingar pygmya þannig að það sé hver sá þjóðflokkur eða ættbálkur þar sem karlmennirnir ná ekki 150 sentimetra hæð fullvaxnir.

Tsang Chen-hua, sem fer fyrir rannsóknarhópnum, segir þetta stórmerkilega uppgötvun. Hópurinn hafi þegar fundið rúmlega 200 verkfæri úr steini og sennilega séu hvergi nærri öll kurl komin til grafar. Nú þurfi helst að finnast hauskúpa til að hægt sé að greina með meiri nákvæmni hver uppruni þessa fólks var. Hann giskar þó á að það eigi rætur sínar í Kína eða Indó-Kína. Alls vinna ellefu fornleifafræðingar að rannsóknum á svæðinu og hefur verkefnið hlotið styrk frá yfirvöldum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×