Innlent

Niðurstaðan gat ekki orðið önnur

séra Gunnar Björnsson
séra Gunnar Björnsson

Kristinn Bjarnason verjandi séra Gunnars Björnssonar segir niðurstöðu Hæstaréttar í raun ekki hafa komið sér á óvart. Hæstiréttur staðfesti sýknudóm héraðsdóms yfir Gunnari sem var ákærður fyrir kynferðislega áreitni gagnvart tveimur stúlkum.

Séra Gunnar vildi ekki tjá sig um niðurstöðu dómsins þegar fréttastofa náði af honum tali en vísaði þess í stað á verjanda sinn Kristinn Bjarnason.

Kristinn segir að eins og málið lá fyrir Hæstarétti hefði niðurstaðan ekki getað orðið önnur. Hann segir að í málinu sé sannað að Gunnar hafi faðmað tvær stúlkur og kysst aðra þeirra á hvora kinn.

„Það er það sem talið er sannað í héraði og ákæruvaldið undi þeirri niðurstöðu. Það lá því ekkert annað fyrir Hæstarétti en að meta hvort þessi atvik, faðmlag og koss á kinn, séu kynferðisleg áreitni. Í mínum huga var það algjörlega ljóst að ekki væri hægt að flokka slíka háttsemi undir kynferðislega áreitni eða ósiðlega háttsemi," segir Kristinn.

Hann veltir því fyrir sér hversu langt er gengið til þess að fá sakfellingu í málinu. „Maður spyr sig því hversvegna þessum dómi héraðsdóms var áfryjað?."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×