Innlent

Skerðingar á móti hærri framfærslu

Breytingar Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra og Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra kynntu breytingar á fyrirkomulagi námslána í menntamálaráðuneytinu í gær.Fréttablaðið/Stefán
Breytingar Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra og Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra kynntu breytingar á fyrirkomulagi námslána í menntamálaráðuneytinu í gær.Fréttablaðið/Stefán

Réttur námsmanna til atvinnuleysisbóta í sumarfríi verður afnuminn, skerðing á námslánum vegna tekna aukin og tekið verður harðar á námsmönnum sem þiggja atvinnuleysisbætur til að skera niður kostnað á móti fimmtungshækkun grunnframfærslu námslána.

Stjórnvöld tilkynntu í gær að grunnframfærsla námslána Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) skyldi hækka úr 100 þúsund krónum á mánuði í 120 þúsund krónur á mánuði, eins og sagt var frá í Fréttablaðinu í gær. Framfærsla námsmanna sem búa í foreldrahúsum mun þó standa í stað, og verður 50 prósent af grunnframfærslu.

Kostnaðarauki LÍN við þessa breytingu er um einn milljarður króna á ári, segir Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra. Hún segir að með því að hækka tekjuskerðingarhlutfall úr 10 prósentum í 35 prósent, með 750 þúsunda króna frítekjumarki, megi lækka kostnað LÍN um 300 milljónir króna á móti þessum kostnaði.

Auk þess er reiknað með að kostnaður félags- og tryggingamálaráðuneytisins lækki um 700 til 900 milljónir króna, segir Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra. Draga á úr kostnaði ráðuneytisins með því að afnema rétt námsmanna til atvinnuleysisbóta yfir sumartímann. Þá verður atvinnuleysisskrá samkeyrð við nemendaskrá háskólanna til að nemendur í lánshæfu námi þiggi ekki bætur.

Árni Páll segir mikilvægt á krepputímum að éta ekki útsæðið, og standa vörð um möguleika fólks til að mennta sig. Hækkun á námslánum muni vonandi leiða til þess að fleiri sæki í nám í stað þess að þiggja atvinnuleysisbætur. Í því skyni verði til að mynda frítekjumark vegna skerðingar á námslánum fimmfalt, 3.750 þúsund krónur, hjá þeim sem hafi verið á vinnumarkaði en vilji hefja nám á ný.

Breytingar á námslánum koma til framkvæmda strax, en þeir sem hafa sótt um lán fyrir haustönn þurfa að sækja aftur um ef þeir vilja njóta góðs af. brjann@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×