Innlent

Hátt í tuttugu sófasettum stolið í Dugguvogi

Breki Logason skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Starfsmenn húsgagnaverslunarinnar Patta ehf. í Dugguvogi ráku upp stór augu þegar þeir mættu til vinnu í morgun. Í nótt hafði verið farið inn í tvo gáma fyrir utan verslunina og 10-12 glænýjum sófasettum stolið. Í fyrrinótt voru 4-6 sófasett tekin. Tjónið er vel á fjórðu milljón króna. Þórarinn Hávarðsson sölustjóri segir tjónið gríðarlegt.

„Í fyrrinótt var farið inn í einn gám og 4-6 sett tekin. Það var einnig tjaldvagn í gámnum sem þeir létu vera," segir Þórarinn í samtali við fréttastofu. Í gærdag var tjaldvagninn seturr inn í verslunina og stórum flutningabílum lagt fyrir gámana.

Þjófarnir létu það hinsvegar ekki stöðva sig og fóru aftur í gáminn, líklega til þess að taka tjaldvagninn að sögn Þórarins. Þegar þeir gripu í tómt þar fóru þeir í annan gám og tóku 10-12 sófasett eins og fyrr segir.

Um er að ræða svokölluð 3-1-1 sófasett sem eru mjög plássfrek að sögn Þórarins. Þjófarnir hafa því verið á stórum flutningabíl og hafa líklega farið í gámana í nótt eða seint í gærkvöldi. Þórarinn segir húsgagnamarkaðinn lítinn hér á landi og því sé líklegt að menn komi þessu úr landi sem fyrst.

„Þú selur ekkert fimmtán til átján sófasett á markaði hér á landi."

Aðspurður hvort tryggingarnar nái yfir tjónið segir Þórarinn að verið sé að skoða það, ólíklegt sé þó að þær nái yfir vörur sem eru í gámum.

„Þetta er alveg hræðilegt og mikil blóðtaka fyrir okkur. Ef einhver hefur séð mannaferðir þarna í nótt væri gott ef þeir hefði samband við okkur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×