Enski boltinn

Arsenal hefndi ófaranna gegn Hull

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Robin van Persie átti stórleik í liði Arsenal í dag. Hér er hann í baráttu við Sam Ricketts, leikmann Hull.
Robin van Persie átti stórleik í liði Arsenal í dag. Hér er hann í baráttu við Sam Ricketts, leikmann Hull. Nordic Photos / Getty Images

Arsenal vann í dag 3-1 sigur á Hull í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinn og hefndi þar með fyrir ófarirnar í september er Hull vann óvæntan 2-1 sigur á Emirates-leikvanginum.

Það var Robin van Persie sem var óumdeilanlega maður leiksins en hann lagði upp öll mörk Arsenal í leiknum sem þeir Emmanuel Adebayor, Samir Nasri og Nicklas Bendtner skoruðu.

Daniel Cousin skoraði mark Hull og jafnaði þar með metin í leiknum en Arsenal skoraði tvívegis undir lok leiksins.

Kevin Kilbane fór beint inn í byrjunarlið Hull en hann kom frá Wigan í vikunni. Manucho, sóknarmaðurinn sem kom að láni frá Manchester United, var á bekknum en kom inn á sem varamaður undir lok leiksins.

Leikurinn byrjaði nokkuð rólega en eftir hálftíma leik náði Emmanuel Adebayor að skora fyrsta mark leiksins með laglegum skalla eftir fyrirgjöf van Persie úr hornspyrnu.

Skömmu síðar átti Emmanuel Eboue gott færi fyrir heimamenn en skaut framhjá úr góðu færi en ekki gerðist mikið fleira markvert í fyrri hálfleik ef frá eru talin nokkur hálffæri.

Arsenal byrjaði betur í síðari hálfleik en náði ekki að færa sér yfirhöndina í nyt. Manucho kom inn á sem varamaður snemma í síðari hálfleik og það virtist lífga nokkuð upp á leik Hull.

Það var svo á 65. mínútu að heimamenn náðu að jafna metin og var Daniel Cousin þar að verki með skalla eftir fyrirgjöf Bernard Mendy.

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, ákvað að skella Nicklas Bendtner inn á í sóknina og voru gestirnir vissulega líklegri til að skora næsta mark í leiknum. Það gerðist svo á 82. mínútu er Samir Nasri afgreiddi knöttinn í netið með laglegu skoti eftir glæsilegan undirbúning van Persie.

Arsenal innsiglaði svo sigurinn er van Persie lagði upp sitt þriðja mark í leiknum eftir laglegan samleik við Bendtner sem átti ekki í vandræðum með að skora af stuttu færi. Van Persie virtist þó vera rangstæður þegar hann fékk sendinguna inn fyrir vörn Hull.

Bendtner átti svo skalla í stöngina í uppbótartíma en þar við sat og niðurstaðan 3-1 sigur Arsenal. Liðið er enn í fimmta sæti deildarinnar, nú þremur stigum á eftir Aston Villa. Hull er í áttunda sæti, enn með 27 stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×