Innlent

Konan grunuð um að hafa dregið sér 60 milljónir

Meintur fjárdráttur 65 ára gamallar konu sem starfaði í eignastýringu Kaupþings á að hafa staðið yfir frá árinu 2004 til 2008. Konan er grunuð um að hafa dregið að sér um 60 milljónir króna.

Í fjölmiðlum hafa verið nefndar tölur allt upp í 500 milljónir króna en eftir því sem fréttastofa kemst næst á konan að hafa dregið að sér um 60 milljónir. Í samtali við fréttastofu í morgun vild hún ekkert láta hafa eftir sér vegna málsins en í DV í dag segist hún koma af fjöllum. Henni var sagt upp störfum í sumar og segir hún það ekki hafa tengst fjárdrætti með neinum hætti. Henni hafi verið sagt upp störfum fyrir að lána peninga og stunda viðskipti við fólk sem sé henni tengt eins og hún orðar það.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er einmitt hluti af kærunni svokölluð umboðssvik, þar sem konan á að hafa keypt skuldabréf nátengdra aðila. Það var slitastjórn Kaupþings sem kærði málið til efnahagsbrotadeildar lögreglunnar.

Helgi Magnús Gunnarsson yfirmaður deildarinnar segir rannsókn málsins á frumstigi, enginn hafi verið yfirheyrður og miðað við verkefnastöðu deildarinnar í dag, reikni hann ekki með að málið verði skoðað frekar á næstunni.










Tengdar fréttir

Starfsmaður Kaupþings grunaður um stórfelldan fjárdrátt

Fyrrverandi starfsmaður gamla Kaupþings er grunaður um stórfelldan fjárdrátt. Konan er talin hafa dregið að sér tugi eða hundruða milljóna króna. Hún var rekin þegar málið komst upp, að því er fréttastofa RÚV greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×