Enski boltinn

Benitez segir Ferguson fá sérmeðferð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Benitez og Ferguson.
Benitez og Ferguson. Nordic Photos / Getty Images
Rafa Benitez gagnrýndi Alex Ferguson, knattspyrnustjóra Manchester United, harkalega á blaðamannafundi Liverpool í dag.

Benitez segir að Ferguson fái sérmeðferð hjá aganefnd enska knattspyrnusambandsins. Hann sé eini knattspyrnustjórinn sem sé ekki refsað fyrir að ráðast að dómurum með gagnrýni sinni.

„Við áttum fund þar sem virðing í knattspyrnunni var rædd og ég sagði þeim að gleyma þessu þar sem Ferguson væri að drepa dómarana," sagði Benitez.

Ferguson fékk þó tveggja leikja bann í nóvember síðastliðnum fyrir að gagnrýna Mike Dean knattspyrnudómara og var einnig sektaður um tíu þúsund pund.

Ferguson hafði látið hafa eftir sér í vikunni að Liverpool myndi fara á taugum og ekki endast í titilbaráttunni. Þegar Benitez var spurður um þessi ummæli jós hann úr skálum reiði sinnar.

„Þessi ummæli komu mér á óvart. Kannski að þeir séu sjálfir stressaðir vegna þess að við erum á toppi deildarinnar."

Því næst dró hann fram lista um þau gagnrýnisatriði sem Ferguson hefur látið hafa eftir sér um dómara, leikjaniðurröðun og fleira.

„Ég vil tala um staðreyndir. Ég vil ekki taka þátt í sálfræðistríði svo snemma þó svo að þeir virðast þegar hafa byrjað á því."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×