Erlent

Síðasta Bráðavaktin í loftið

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Eftir 15 ára samfellda sigurgöngu verður lokaþáttur sjúkrahússsápunnar Bráðavaktarinnar, eða ER, sýndur á bandarísku NBC-sjónvarpsstöðinni annað kvöld. Þættirnir eru runnir undan rifjum rithöfundarins og læknisins Michaels Crichton heitins en hann skrifaði handritið að fyrsta þættinum reyndar árið 1974 og byggði það á sinni eigin reynslu frá því að hann starfaði á bráðavakt sem ungur læknanemi.

Crichton er þó ef til vill þekktari fyrir skáldsögur á borð við Jurassic Park og Rising Sun sem hvorar tveggja urðu að stórmyndum á hvíta tjaldinu. Það munaði reyndar minnstu að Bráðavaktarþættirnir yrðu aldrei framleiddir en þegar upp var staðið sópuðu þeir til sín hvorki meira né minna en 22 Emmy-verðlaunum og skutu leikurunum George Clooney og Anthony Edwards ásamt fleirum svo langt upp á stjörnuhimininn að þeir eru ekki enn komnir til jarðar.

Lokaþátturinn um líf og störf lækna á County General-sjúkrahúsinu verður í lengri kantinum, tveir tímar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×