Innlent

Ræningjanna á Arnarnesi enn leitað - vísbendingar borist

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni er tveggja manna enn leitað sem rændu eldri hjón á Arnarnesi í gærkvöldi. Ránið var vopnað, harkalegt en hjónunum var haldið í gíslingu í rúmar tuttugu mínútur.

Lögregla segir að þónokkrar vísbendingar hafi borist vegna málsins en lögregla bað þá sem urðu varir við óvenjulegar mannaferðir í hverfinu að hafa samband í morgun.

Það var á tólfta tímanum í gærkvöldi sem mennirnir börðu að dyrum hjá hjónunum sem eru um áttrætt. Þegar þau opnuðu dyrnar réðust þeir á þau og inn í húsið. Mennirnir voru vopnaðir hnífum og hótuðu fólkinu lífláti ef það léti þá ekki hafa fjármuni.

Þeir héldu hjónunum í gíslingu í gíslingu í um tuttugu mínútur á meðan þeir fóru ránshendi um íbúðina. Þeir komust svo á brott með hringa, farsíma, fartölvu, upptökuvél og um sextíu þúsund krónur í peningum. En konan hlaut minniháttar áverka.

Lögreglan segist varla muna að áður hafi verið ráðist svona inn á heimili fólks og fólk beitt ofbeldi. Nágrannar sem fréttastofa ræddi við voru slegnir vegna málsins.

Talið er að mennirnir séu á aldrinum átján til tuttugu og fjögurra ára. Þeir eru grannvaxnir, íslenskir og voru klæddir hettupeysum með klúta fyrir anditinu. Lögreglan biður alla þá sem urðu varir við óvenjulegar mannaferðir á svæðinu um miðnætti að hafa samband í síma 4441104.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×