Innlent

Velferðarsamfélagið byggir á samkeppni

Frá kynningarfundi Samstarf norrænu samkeppniseftirlitanna hefur staðið í fimmtíu ár.fréttablaðið/gva
Frá kynningarfundi Samstarf norrænu samkeppniseftirlitanna hefur staðið í fimmtíu ár.fréttablaðið/gva

„Virk samkeppni er ein grunnforsenda þess að hægt sé að viðhalda norrænu velferðarkerfi,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins (SE). „Stefnumörkun okkar gengur út á að menn megi ekki leiðast út í að horfa á skammtímahagsmuni einstakra fyrirtækja heldur verði að horfa á langtímahagsmuni samfélagsins.“

Þetta er meðal niðurstaðna norrænna samkeppniseftirlita í sameiginlegri skýrslu sem tekur á álitamálum samkeppnisumhverfis á tímum efnahagsþrenginga. Forsvarsmenn norrænu samkeppniseftirlitana funda nú í Reykjavík og byggja á samstarfi sem hófst fyrir fimmtíu árum.

„Skammtímalausnir eru oft vandamál morgundagsins,“ segir Páll Gunnar. Hann minnir á að efnahagskreppur fyrri tíma hafi kallað á viðbrögð sem hafi dregið áhrif þeirra á langinn. Meðal þeirra aðgerða var verndarstefna og veiking samkeppnisreglna. Í skýrslunni er því lögð þung áhersla á að dreginn sé lærdómur af reynslu genginna kynslóða. Í aðgerðum gegn kreppunni verði að hafa hliðsjón af áhrifum þeirra á samkeppni. Slíkt verði gert strax frá upphafi þannig að ekki þurfi að vinda ofan af aðgerðum sem skaði samkeppni, til langvarandi tjóns fyrir neytendur og samfélagið í heild.

Eftir hrunið sendi SE stjórnvöldum og fjármálafyrirtækjum samantekt yfir þau atriði sem hafa þyrfti í huga í því umhverfi sem hér hefði skapast. Stjórnvöld tóku tillit til þessara atriða í eigendastefnu ríkisins.

„Stjórnvöld hafa því tekið þetta upp í sinni stefnumörkun,“ segir Páll Gunnar. „Við höfum síðan fylgt þessu eftir varðandi bankana og þeir eru að feta sig áfram. Við höfum gert athugasemdir, til dæmis um að þeir setji upp skýrar vinnureglur svo fólk hafi trú á því að samkeppnisreglur séu virtar.“

Ljóst er að öll samkeppniseftirlitin hyggjast draga skýra línu. „Við þessar aðstæður getur verið freistandi fyrir stór fyrirtæki að nýta sér, og jafnvel misnota, ráðandi stöðu á markaðnum. Samkeppnisyfirvöld á Norðurlöndunum munu ekki umbera brot á samkeppnislögunum,“ sagði Dan Sjöblom, forstjóri sænska samkeppniseftirlitsins, þegar skýrslan var kynnt í gær.svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×