Innlent

Tóku tuttugu kókaínskammta

Borgarnes Lögreglan í Borgarnesi fékk pata af fyrirhugaðri fíkniefnasölu.
Fréttablaðið/gva
Borgarnes Lögreglan í Borgarnesi fékk pata af fyrirhugaðri fíkniefnasölu. Fréttablaðið/gva

Lögregla lagði hald á tuttugu skammta af hvítu efni sem talið er vera kókaín, auk lauss efnis og íblöndunarefnis í tveimur íbúðum í Reykjavík á miðvikudagskvöld. Tveir karlmenn og ein kona voru handtekin á staðnum og færð til skýrslutöku. Þeim var sleppt að því loknu.

Það var lögreglan í Borgarnesi sem fékk grunsemdir um að fíkniefni væru á leiðinni upp í Borgarfjörð og að þau væru ætluð til sölu þar. Hún fékk lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og sérsveit Ríkislögreglustjóra í lið með sér. Farið var í tvær húsleitir í Reykjavík þar sem fíkniefnin fundust, þar á meðal skammtarnir sem búið var að pakka inn í smásöluumbúðir.

Einn einstaklingurinn sem handtekinn var í tengslum við málið var einnig tekinn fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna. Hinir handteknu hafa tengsl upp í Borgarnes.

Enn er ekki ljóst hversu mikið magn fíkniefna um er að ræða, þar sem rannsóknarniðurstöður þar að lútandi liggja ekki fyrir, meðal annars á sundurgreiningu hvíta efnisins og íblöndunarefnanna. Þá er eftir að yfirheyra fólkið sem handtekið var. Lögregla heldur áfram rannsókn málsins.

- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×