Erlent

Pennafærir flugmenn óskast

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
„Góðir farþegar, þetta er ritstjórinn sem talar...“
„Góðir farþegar, þetta er ritstjórinn sem talar...“

Flugfélagið Air-Asia leitar nú að flugmönnum, sem ekki er í frásögur færandi nema hvað þeir þurfa ekki að kunna að fljúga.

Flugstjórar framtíðarinnar hjá AirAsia, lággjaldaflugfélagi sem er í hvað örustum vexti í Asíu, þurfa ekki einu sinni að hafa stigið fæti um borð í flugvél. Flugfélagið efnir einfaldlega til ritgerðarsamkeppni á vefnum og velur starfsfólk sitt eftir því hverjir þar verða hlutskarpastir við að rökstyðja hvers vegna þeir ættu að hreppa hnossið og fá starf hjá félaginu.

Sniðugt lággjaldaflugfélag, það ætlar sem sagt að hafa gjöldin svo lág að það þurfi ekki að fljúga neitt. Nei, reyndar er það nú ekki svarið. AirAsia ætlar hins vegar að tína sína ávexti beint af trénu og þjálfa starfsfólkið alveg frá grunni og er flugnám frá a til ö þar innifalið. Jæja, það er reyndar ekki rétt að það sé eingöngu nóg að vera góður penni á bloggsíðunni sinni.

Væntanlegir umsækjendur þurfa að vera milli 18 og 28 ára, við sæmilega heilsu auk þess sem þeir þurfa að tala ensku og malasísku hnökralaust. Síðast en ekki síst mega umsækjendur ekki vera blindir. Umsóknarfrestur er til 15. maí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×