Innlent

Ólga í Framsókn vegna Magma-sölu

Sala á hlut Orkuveitunnar til Magma Energy hefur fengið umfjöllun í borgarstjórn. Borgarráð fundar í dag.fréttablaðið/stefán
Sala á hlut Orkuveitunnar til Magma Energy hefur fengið umfjöllun í borgarstjórn. Borgarráð fundar í dag.fréttablaðið/stefán

„Fjölmargir framsóknarmenn, þar á meðal ég, telja það ekki þjóna hagsmunum almennings á Íslandi að selja úr landi yfirráð á orkuauðlindum. Fjölmargir framsóknarmenn eru andstæðingar þeirrar skefjalausu einkavæðingarstefnu sem einkennir Sjálfstæðisflokkinn“, skrifar Salvör Gissurardóttir, stjórnarmaður í framsóknarfélagi Reykjavíkur.

Salvör staðfestir að hún sé alfarið á móti því að hlutur Orkuveitunnar verði seldur á þessum tímapunkti og „vil gera allt sem í mínu valdi stendur til að stöðva þennan gjörning“, eins og hún orðar það.

Spurð hvort hún hafi tilfinningu fyrir því hvort þetta sé skoðun margra framsóknarmanna segir hún að svo sé. Viðhorf framsóknarmanna til einkavæðingar séu önnur en sjálfstæðismanna. Salvöru finnst að framsóknarmenn ættu að fjarlægja sig frá Sjálfstæðisflokknum og ekki standa með þeim að samþykkt á sölu hlutarins til Magma Energy.

Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og formaður borgarráðs, tekur ekki undir að urgur sé á meðal framsóknarfólks í borginni.

„Það er allt of mikið sagt að það sé mikill óróleiki innan okkar raða en hins vegar eru skiptar skoðanir og við höfum tekið umræðuna. Menn átta sig á því að við erum í þeirri stöðu að vera með úrskurð samkeppnisyfirvalda um að selja þennan hlut og það skiptir Orkuveituna miklu máli að losa hlutinn á þessum tíma. Þannig getum við byggt upp Orkuveitu Reykjavíkur sem er fyrirtæki í almannaeigu.“ Óskar segir að þessu slepptu megi velta fyrir sér hugmyndafræðinni um hvorum megin orkufyrirtækin eiga að liggja og það sé nærtækt að beina spjótum að þeim sveitarfélögum sem þegar hafa selt frá sér orkufyrirtækin. „Það er ekki hægt að segja það um Reykvíkinga.“

Í niðurlagi bloggfærslu Salvarar segir að nú reyni á borgarfulltrúa í borgarráði og borgarstjórn um hvort samkomulagið verði staðfest. „...þar eiga menn að horfa á víðari hagsmuni en bara hagsmuni eins fyrirtækis. Það er margt sem bendir til að borgin sé ekkert að tapa á því að bíða og gefa ríkinu eða öðrum innlendum aðilum meira svigrúm til að kaupa.“

Spurður hvort þrýstingur frá óánægðu framsóknarfólki geti haft áhrif á niðurstöðu málsins úr þessu svarar Óskar neitandi.

svavar@frettabladid.is

Salvör Gissurardóttir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×