Innlent

Þýsk stjórnvöld hótuðu Íslendingum

Þýsk stjórnvöld hótuðu að hafa áhrif á viðræður Íslands við Evrópusambandið og samninginn við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn ef þýskir innstæðueigendur Kaupþing Edge fengju ekki greitt.

Í apríl bárust fréttir af því að skilanefnd Kaupþings hefði tryggt fjármagn til að greiða út innistæður 30.000 sparifjáreigenda Kaupþing Edge í Þýskalandi. Nokkrum dögum eftir þessa tilkynningu voru samþykktar á Alþingi breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Þeir hnökrar voru þó á lögunum að ekki mátti greiða út neinar kröfur fyrr en búið væri að innkalla allar kröfur í þrotabúið. Slíkt ferli tekur marga mánuði og setti því greiðslur til þýsku innstæðueigendanna í uppnám.

Samkvæmt heimildum fréttastofu sendi starfsmaður þýska fjármálaráðuneytisins bréf til skilanefndar Kaupþings til að knýja á um að þessar greiðslur yrðu inntar af hendi hið fyrsta. Að öðrum kosti myndi það hafa slæmar afleiðingar fyrir Ísland. Þjóðverjar gætu haft áhrif á viðræður við Evrópusambandið og samninga við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn.

Mark Flanagan, yfirmaður Íslandsnefndar AGS, segir að þrátt fyrir að Þjóðverjar eigi sæti í stjórn sjóðsins, muni þetta mál ekki hafa nein áhrif á samninginn við Ísland.

Alþingi samþykkti í dag breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki sem gera ráð fyrir að skilanefndum verði heimilt að greiða skuldir vegna innlána ef víst sé að nægilegt fé sé til að greiða kröfurnar að fullu.

Þýsku innstæðueigendurnir munu því fá greitt en Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, segir að aldrei hafi annað staðið til.

Samkvæmt heimildum fréttastofu mun þó hótun þýska embættismannsins hafa vakið litla kátínu hjá íslenskum ráðamönnum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.