Erlent

Magn geimrusls stefnir í óefni

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Hlunkur af undnum málmi sem óvænt skall til jarðar í Ástralíu.
Hlunkur af undnum málmi sem óvænt skall til jarðar í Ástralíu.

Vísindamenn hafa töluverðar áhyggjur af auknu magni alls konar rusls í geimnum og áhrifum þess á geimferðir framtíðarinnar.

Þróunin undanfarið bendir til þess að hættan á árekstrum eða alvarlegri nálægð geimfara við geimrusl muni aukast um 50 prósent næstu 10 árin og muni hafa aukist um 250 prósent árið 2059. „Tíminn til að gera eitthvað í málinu er núna,“ segir Hugh Lewis við verkfræðideild háskólans í Southhampton á Englandi en hann hefur rannsakað þróunina á þessum vettvangi. Hann bendir á að ruslið aukist jafnt og þétt og hættan með.

Þarna er aðallega um að ræða alls kyns leifar af gömlum gervihnöttum, hluti sem brotnað hafa af geimskutlum og meira og minna allt sem jarðarbúar hafa skotið út í geiminn og hefur ekki komið niður aftur. Ekki er langt síðan tveir gervihnettir splundruðust þegar þeir skullu saman yfir Síberíu og auðvelt er að ímynda sér þann haug af svífandi drasli sem varð til við þann árekstur. Þetta þýtur svo umhverfis jörðina með 30.000 kílómetra hraða á klukkustund og þar af leiðandi langt í frá huggulegt að vera að koma á sama hraða úr gagnstæðri átt getur maður ímyndað sér.

Bandaríkjaher segist hafa tök á að fylgjast með 800 gervitunglum í einu með árekstra í huga og muni 500 bætast við þá tölu innan skamms en Lewis telur það engan veginn nægjanlegt miðað við fjölda hluta á sporbaug og bendir á miðað sé við að fimm kílómetra fjarlægð kallist mikil nálægð í geimnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×