Fótbolti

Engin félagsskipti fyrir átján ára aldur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michel Platini, forseti UEFA, hefur í nóg að snúast.
Michel Platini, forseti UEFA, hefur í nóg að snúast. Mynd/GettyImages

Stóru félögin og deildirnar í Evrópu ætla að styðja Michel Platini, forseta UEFA, í baráttu sinni um að banna félagsskipti fyrir átján ára aldur.

Platini segir að það sé mikilvægt að koma þessari reglu á til þess að sporna við þeim mikla fjölda leikmanna sem streymir inn til Evrópu, bak við tjöldin, frá Afríku og Ameríku.

Platini er kominn með í hendurnar samkomulag sem allir aðilar hafa undirritað en það eru fulltrúar knattspyrnusambanda og deilda landanna, fulltrúar félaganna og fulltrúar leikmannasamtakanna.

Þar er lögð áhersla á að leikmenn skrifi undir sinn fyrsta samning við það lið sem ól þá upp og að öll félagsskipti til og innan Evrópu séu bönnuð fyrir átján ára aldur.

Vandamálið er að allar reglur verða að vera samþykktar af Evrópusambandinu en þar er 16 ár lágmarksaldurinn en ekki 18 ára eins og í nýju reglugerðinni.

Platini hefur unnið í því að fá samþykki Evrópusambandins til að gera undantekningu í þessu máli og hefur hann vilyrði Íþróttamálaráðherra EU, Jan Figel, um að fá það.

Til að svo að hann fá þetta leyfi verður Platini samt að sýna fram á að þessi nýja regla geti spornað við þessum innflutningi á kornungum leikmönnum frá fátækustu löndum heims.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×