Innlent

Íslenskir múslimar gefnir saman

Salmann Tamimi formaður félagsins gaf fyrsta alíslenska parið saman í mosku félagsins í Ármúla þar sem þessi mynd var tekin. fréttablaðið/vilhelm
Salmann Tamimi formaður félagsins gaf fyrsta alíslenska parið saman í mosku félagsins í Ármúla þar sem þessi mynd var tekin. fréttablaðið/vilhelm

 Tímamót urðu hjá samfélagi múslima á Íslandi þegar fyrsta íslenska parið var gefið saman í mosku Félags múslíma á Íslandi um síðustu helgi. Það var Salmann Tamimi, formaður félagsins, sem gaf þau Hjalta Björn Valþórsson og Gunnhildi Ævarsdóttur saman.

„Það eru vissulega til Íslendingar sem hafa tekið trú og gifst öðrum sem er okkar trúar en þetta er fyrsta alíslenska hjónabandið hjá okkur,“ segir Salmann. Hann segir enn fremur að íslenskum múslimum fari ört fjölgandi nú síðustu tvö árin. „Fyrir tveimur til þremur árum voru þeir teljandi á fingrum annarrar handar en nú eru þeir milli 30 og 40. Enda er margt að snúast á sveif með múslimum bæði hér og annars staðar í heiminum í dag. Nú þegar fólk er að endurmeta gildin þykir mörgum gæfulegt hjá okkur að setja ekki allt okkar traust á vexti en þeir eru bannaðir samkvæmt okkar trú. Og er ekki allt að verða vitlaust í heiminum vegna sýkingar í svínum núna. Eins og allir vita borðum við þau ekki svo aftur er gæfan með okkur þar.“

Hann segir að flestir sem gerist múslimar hér á landi séu ungt fólk. „Og það er gríðarlegur áhugi í gangi, það eru fjölmargir að fá upplýsingar hjá okkur um trúna og velta þessu fyrir sér.“- jse




Fleiri fréttir

Sjá meira


×