Erlent

Segir ferðamannastraum ógna Galapagos

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Galapagos-eyjar.
Galapagos-eyjar.

Fjöldi ferðamanna er farinn að ógna lífríki og náttúru Galapagos-eyja að sögn Andrew Marr, sjónvarpsmanns hjá BBC.

Nú þykir ljóst að árið 2009 munu fleiri ferðamenn heimsækja Galapagos-eyjaklasann í Austur-Kyrrahafi en nokkru sinni fyrr. Þessi mikli áhugi tengist að sjálfsögðu Charles Darwin og þróunarkenningu hans en Darwin rannsakaði eyjarnar ítarlega í hnattsiglingu sinni með HMS Beagle árin 1831 - 1835.

Það er einmitt í dag, 12. febrúar, sem 200 ár eru liðin frá fæðingu Darwins en auk þess á þróunarkenning hans frá 1859 stórafmæli á árinu. Andrew Marr, stjórnmálaskýrandi og sjónvarpsmaður hjá BBC, varar við því að lífríki Galapagos-eyja þoli engan veginn þennan mikla ferðamannastraum en hann hefur um það bil fjórfaldast á síðustu 20 árum en mun í ár slá öll aðsóknarmet.

Marr segir ekki að loka skuli eyjunum fyrir ferðamönnum en draga verði verulega úr umferð þeirra. Þessu mótmæla ferðaþjónustuaðilar auðvitað hástöfum enda óttast þeir mjög að missa spón úr aski sínum verði hlustað á Marr. Marr hvikar hins vegar í engu frá málflutningi sínum og spyr af hverju ferðamenn skelli sér ekki til Falklandseyja, Darwin hafi eytt mun meiri tíma við rannsóknir þar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×