Innlent

Hrefnan étur mun meira af þorski og ýsu en áður var talið

Niðurstöður hrefnurannsókna Hafrannsóknastofnunarinnar á árunum 2003-2007 benda til þess hrefnan éti árlega allt að 300.000 tonn af þorski og ýsu. Frá þessu er greint á heimasíðu LÍU og sagt að um fimmfalt meira magn að ræða en en eldri rannsóknir hafa leitt í ljós. Til samanburðar er nefnt að heildaraflamark þorsks og ýsu á yfirstandandi fiskveiðiári er um 250.000 tonn.

„Samkvæmt vegnu meðaltali var bolfiskur 26% innihalds hrefnumaga í umræddum rannsóknum," segir í frétt LÍU. Þar segir einnig að ýsa hafi reynst vera um 7 prósent magainnihaldsins, þorskur 8 prósent og annar bolfiskur 11 prósent. „Loðna reyndist aðeins um 8 prósent af fæðu hrefnunnar og síld 14 prósent. Áætlað er að hrefnan við landið éti árlega um 2 milljónir tonna af fiski."

Það vekur athygli útvegsmanna hve stóran þorsk sé um að ræða. „Þorskurinn var að uppistöðu 4-8 ára gamall, 50-80 sm að lengd og ýsan var að jafnaði 5-6 ára, 45-55 sm að lengd. Þessar niðurstöður voru kynntar í erindi þeirra Gísla A. Víkingssonar, Anton Galan, Droplaugar Ólafsdóttur og Sverris D. Halldórssonar á Hafráðstefnu stofnunarinnar fyrir skömmu."

Þá er bent á að rannsóknir Hafrannsóknastofnunarinnar sýni miklar breytingar í fæðusamsetningu hrefnu á árabilinu 1985-1995 annars vegar og svo 2003-2007 hins vegar. „Það bendir til þess að hún lagi sig að fæðuframboðinu í hafinu og éti í raun það sem hún kemst í hverju sinni."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×