Íslenski boltinn

Hrefna vill fara aftur í KR

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hrefna Huld Jóhannesdóttir gæti verið á leið aftur í KR.
Hrefna Huld Jóhannesdóttir gæti verið á leið aftur í KR. Mynd/E. Stefán

Hrefna Huld Jóhannesdóttir vill semja við KR á nýjan leik en hún fékk sig lausa undan samningi sínum við Stjörnuna á dögunum.

Hrefna fór til Stjörnunnar frá KR fyrr í vetur en hún hefur lengst af á sínum ferli leikið í Vesturbænum.

„Ég stefni á að reyna að semja við KR aftur," sagði Hrefna í samtali við Vísi í dag. „Ég hef þegar mætt á eina æfingu með liðinu og er aftur að fara á æfingu núna á eftir."

„Ég er reyndar líka búin að heyra í Keflavík en ég sagði þeim þar að KR væri númer eitt hjá mér. En ég væri líka tilbúin til að skoða Keflavík."

Hún segir að dvöl sín hjá Stjörnunni hafi ekki verið eins og hún átti von á. „Ég hef verið lengst af í KR og svo líka í Breiðablik, ÍBV og eitt ár í Noregi. KR er virkilega flottur klúbbur og virkilega vel að öllu staðið þar. Það er því erfitt að fara í eitthvað annað félag sem er mörgum árum á eftir þegar maður er góðu vanur."

„Þetta er í raun eins og að fara frá Liverpool í utandeildina. Það var í raun ástæðan fyrir þessu. Því miður því mér líkaði vel við Stjörnuna, bæði leikmenn og þjálfara."

„En þetta reyndist mér erfitt að taka þetta skref aftur á við. En það er einfaldlega of stór munur á þessum tveimur félögum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×