Íslenski boltinn

Heimir er bjartsýnn á að Dennis sé ekki með slitið krossband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dennis Siim mun örugglega missa af upphafi Íslandsmótsins.
Dennis Siim mun örugglega missa af upphafi Íslandsmótsins. Mynd/Vilhelm

Það kemur endanlega í ljóst í kvöld hvort FH-ingurinn Dennis Siim sé með slitið krossband eða ekki en Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, er bjartsýnn eftir læknisskoðun fyrr í dag. Dennis meiddist í undanúrslitaleik FH og Fylkis í Lengjubikarnum í gær.

„Dennis fer í myndatöku klukkan hálf fimm í dag. Hann er búinn að fara í skoðun, fór í hana fyrir klukkutíma síðan, og þeir halda að þetta sé rifinn liðþófi og jafnvel að liðbandið sé eitthvað skaddað," sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH.

„Ef að það er þá ætti hann að vera klár eftir landsleikjapásuna um miðjan júní," sagði Heimir en örlög Danans trausta ráðast þó ekki endanlega fyrr en búið er að mynda hnéð.

„Það er ekkert öruggt því að þetta gæti verið krossbandið en það kemur í ljós í kvöld. Ef að það er þá er þetta búið hjá honum í sumar en við vonum það besta og vonandi verður hann klár eftir landsleikjahléið," segir Heimir.

Heimir þurfti líka að horfa á eftir þremur öðrum leikmönnum sínum fara meidda af velli í gær en það voru þeir Freyr Bjarnason, Alex Söderlund og Tommy Nielsen.

„Bæði Freyr og Tommy eru spurningamerki og geta verið frá í tvær til þrjár vikur," sagði Heimir en Tommy tognaði á ökkla en Freyr á læri.

„Þetta er eitthvað minna hjá Alex og hann verður vonandi klár eftir eina viku eða tvær," segir Heimir en hann þarf að skipta um þrjá menn í varnarlínunni fyrir úrslitaleikinn í Lengjubikarnum á móti Blikum sem fram fer á föstudaginn kemur.

„Nú þarf maður að taka gamla feldinn á þetta og sjá hvað er hægt að gera. Meiðsli fylgja fótboltanum og við verðum að vona það besta. Þetta eru allt leikmenn í góðri þjálfun og þeir ættu að vera fljótir að jafna sig," sagði Heimir að lokum.

FH lenti 1-0 undir á móti Fylki og missti þrjá menn meidda af velli í fyrri hálfleik en kom til baka og tryggði sér 2-1 sigur og sæti í úrslitaleiknum. Heimir var sáttur með hvernig hans menn unnu úr mótlætinu. Hann segir það hjálpa liðinu að fá fleiri alvöru leiki fram að móti.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×