Innlent

Fyrrum þingmaður verður skólastjóri

Einar sést hér með þáverandi félögum sínum á þingi Össuri Skarphéðinssyni, Magnúsi Stefánssyni og Merði Árnasyni. Myndin tekin í mars árið 2007.
Einar sést hér með þáverandi félögum sínum á þingi Össuri Skarphéðinssyni, Magnúsi Stefánssyni og Merði Árnasyni. Myndin tekin í mars árið 2007. Mynd/Anton Brink
„Ég þekki býsna vel til í þessum geira og ég held að það sé ágætt að hefja endurhæfinguna þarna,“ segir Einar Már Sigurðarson, fyrrum þingmaður Samfylkingarinnar, en hann verður að öllum líkindum næsti skólastjóri Valsárskóla á Svalbarðseyri í Eyjafirði. Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps hefur ákveðið að ganga til samninga við þingmanninn fyrrverandi.

„Ekki fara menn að horfa bara á loftið,“ segir Einar kíminn. „Starfið var auglýst og ljóst að ég þyrfti að fá mér eitthvað að gera og ég er ekki ókunnugur þessum vettvangi.“

Einar átti sæti á Alþingi fyrir Samfylkinguna á árunum 1999 til 2009. Hann féll í prófkjöri flokksins í aðdraganda þingkosninganna. Áður starfaði Einar lengi vel sem kennari og um tíma sem skólameistari Verkmenntaskóla Austurlands. Áður en Einar tók sæti á þingi var hann Forstöðumaður Skólaskrifstofu Austurlands.

„Eftir grófa könnun fann ég ekki nein störf hér á þessu svæði,“ segir Einar en hann býr á Neskaupsstað.

Einar á von á því að samningar náist við sveitarstjórnina. Starf skólastjóra í Valsárskóla leggst afar vel í þingmanninn fyrrverandi. „Þetta er draumaskóli.“ Einar segir að skólinn sé blandaður sveita- og þorpsskóli með innan við 100 nemendur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×