Innlent

Börn fá gefins endurskinsvesti

skrítinn karl Borgarfulltrúinn Kjartan Magnússon, formaður menntaráðs, tróð sér í endurskinsvesti í barnastærð í tilefni dagsins. Nemendur í Melaskóla vissu vart hvaðan á þau stóð veðrið.Fréttablaðið / Stefán
skrítinn karl Borgarfulltrúinn Kjartan Magnússon, formaður menntaráðs, tróð sér í endurskinsvesti í barnastærð í tilefni dagsins. Nemendur í Melaskóla vissu vart hvaðan á þau stóð veðrið.Fréttablaðið / Stefán

Í vikunni mun öllum grunnskólabörnum í fyrsta til þriðja bekk í Reykjavík verða færð endurskinsvesti að gjöf frá borginni. Um er að ræða stærsta umferðaröryggisátak sem ráðist hefur verið í í þágu skólabarna í borginni, að því er segir í tilkynningu.

Börnum í Melaskóla voru afhent vestin með hjálp lögreglunnar með viðhöfn í gærmorgun. Þau klæddu sig í vestin og prófuðu þau síðan með því að ganga yfir götu í fylgd lögreglu.

Tilgangur átaksins er að auka notkun endurskinsvesta og endurskinsmerkja meðal ungra barna, og eru þau hvött til að nota vestin á leið til og frá skóla og við önnur tækifæri svo þau sjáist betur í skammdeginu.

Segir í tilkynningu að hægt sé að auka öryggi í umferðinni margfalt með því að nota endurskinsvesti og -merki. Börn með endurskinsmerki sjáist fimm sinnum fyrr en ella.

Gjöfin er liður í umferðaröryggisátaki sem menntaráð Reykjavíkurborgar samþykkti á hundraðasta fundi sínum fyrir skemmstu. Í tengslum við það verður fræðsla um umferðaröryggi efld og leitast við að sá þáttur verði meira áberandi í skólastarfi en verið hefur.

Borgin ræðst í átakið í samvinnu við lögregluna, Umferðarstofu og SAMFOK. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×