Innlent

Nítján ára trúbador býður lénið Metro.is til sölu

Baldvin Sigurðsson keypti lénið Metro.is í júní.
Baldvin Sigurðsson keypti lénið Metro.is í júní.

Trúbadorinn Baldvin Sigurðsson keypti lénið Metro.is í júní síðastliðnum en nafnið Metro var samheiti yfir þrjá trúbadora sem spiluðu á hinum ýmsu knæpum á Íslandi.

„Síðan sá ég bara að það væri að opna nýr hamborgarastaður með sama nafni," segir hinn nítján ára gamli Baldvin sem býður lénið til sölu. Sjálfur flúði hann kreppuna hér á landi og er núna búsettur í Stafangri í Noregi þar sem hann vinnur á hóteli. Hann fór þangað í júlí, mánuði eftir að hann keypti lénið.

Spurður hvort hann hafi fengið einhver tilboð í lénið svarar hann: „Já, það var einn náungi frá Spáni sem sendi mér póst í gær. Ég veit reyndar ekki alveg hvernig það er tilkomið."

Hann segist vera að skoða það tilboð annars sé hann opinn fyrir öllu.

Fyrirhugað er að opna nýjan hamborgarastað þegar McDonald´s hættir en sá staður mun bera heitið Metro. Það var í gær sem tilkynning barst frá Lyst ehf., um að McDonald´s myndi hverfa frá Íslandi frá og með næstu mánaðarmótum. Ástæðan eru strangar reglur skyndibitakeðjunnar varðandi kaup á aðföngum erlendis.

„Ég fékk mér reyndar McDonald´s síðast á föstudaginn," segir Baldvin sem þarf ekki að kvíða hamborgaraskorti frá keðjunni heimsfrægu í Noregi.

Hann segist hinsvegar hafa heyrt í félögum sínum á Íslandi í gær, „og ég veit það þeir munu sakna þeirra," segir Baldvin um lokun McDonald´s á Íslandi.

Hafi einhver áhuga á að festa kaup á léninu þá má hafa samband við Baldvin í gegnum póstfangið baldvinsig@simnet.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×