Erlent

Páfi í vandræðum vegna smokka

Benedikt páfi.
Benedikt páfi.
Benedikt páfi er lentur í sannkallaðri orrahríð eftir að hann lýsti því yfir í heimsókn sinni í Afríku að smokkar veittu ekki vernd gegn alnæmi.

Það átti svosem enginn von á því að Benedikt páfi viki langt frá stefnu kaþólsku kirkjunnar í getnaðarvörnum í heimsókn sinni til Afríku. En það átti heldur engin von á því að hann segði að notkun smokka gerði alnæmispláguna í Afríku enn verri. Það gerði hann hinsvegar í ávarpi sem hann flutti í Kamerún á þriðjudag.

Talsmaður páfagarðs hefur útskýrt ummæli páfa á þann veg að hann hefði verið að benda á að smokkar gætu leitt hug fólks frá því að stunda ábyrgt kynlíf.

Gagnrýnendur gefa lítið fyrir þá skýringu. Heilbrigðisráðherra Frakklands sagði þannig að ummæli páfa væru risavaxin vísindaleg ósannindi sem gerðu afrískum konum erfiðara fyrir.

Talsmaður franska utanríkisráðuneytisins sagði að það væri ekki hlutverk stjórnmálamanna að gagnrýna stefnu kirkjunnar. Þeir litu hinsvegar svo á að yfirlýsingar á borð við þessar væru ógn við hina opinberu stefnu í heilbrigðismálum og skylduna til þess að vernda mannslíf.

Alþjóða heilbrigðisstofnunin hefur blandað sér í slaginn og segir að ekki liggi vísindalegar sannanir fyrir því að smokkar leiði af sér óábyrgt kynlíf. Skoðun stofnunarinnar sé sú að smokkar gagnist sérdeilis vel til þess að hefta útbreiðslu alnæmis.

Hann bætti því þó við að kenningar kirkjunnar um  skírlífi og eða  færri bólfélaga myndu vissulega draga úr smitum ef eftir þeim væri farið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×