Innlent

Stúdentar enn í setuverkfalli - bíða eftir að fundi háskólaráðs ljúki

Stúdentar sem hófu setuverkfall í morgun í Háskóla Íslands til þess að þrýsta á skólayfirvöld um að taka upp sumarannir við Háskólann sitja enn sem fastast og bíða þess að háskólaráð ljúki fundarhöldum sínum um málið. Í yfirlýsingu frá stúdentum segir að krafan um sumarannir hafi verið uppi í lengri tíma en að engin skýr svör hafi borist frá yfirvöldum.

„Stúdentar vita að verið er að leita lausna innan Háskólans, stúdentar vita að málið er í nefnd. Við viljum hinsvegar að háskólayfirvöld viti að á meðan ástandið er óbreytt verða stúdentar örvæntingarfyllri," segir ennfremur í yfirlýsingunni.

Þá segir að stúdentar geri sér grein fyrir að Háskóli Íslands sé ekki andstæðingur stúdenta. „Hinsvegar sér meira en helmingur þeirra 13.500 stúdenta sem stunda nám við Háskóla Íslands fram á atvinnuleysi í sumar. Því köllum við eftir skýrri viljayfirlýsingu frá Háskólayfirvöldum og menntamálaráðuneyti þess efnis að þau hyggist bregðast við þessari erfiðu stöðu og koma til móts við nemendur með því að bjóða upp á nám við Háskóla Íslands í sumar."

„Nú er ekki tími til málalenginga. Nú er tími til aðgerða. Stúdentar þurfa sumarannir," segir að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×