Innlent

Egla leitar nauðasamninga

Egla er dótturfélag Kjalars sem er í eigu Ólafs Ólafssonar, sem oft er kenndur við Samskip.fréttablaðið/gva
Egla er dótturfélag Kjalars sem er í eigu Ólafs Ólafssonar, sem oft er kenndur við Samskip.fréttablaðið/gva

Á fundi kröfuhafa í Eglu hf., sem haldinn var í gær, var samþykkt að leita samþykkis kröfuhafa til að fara fram á nauðasamninga. Stjórnin lagði tillöguna fram, en í henni felst að um 15 prósent af kröfum verði greidd á næstu mánuðum. Skuldir fyrirtækisins eru á níunda milljarð króna.

Fjórðungur kröfuhafa þarf að samþykkja til að beiðni um nauðasamninga verði tekin fyrir. Kristinn Hallgrímsson lögmaður bjóst við að sá stuðningur næðist strax eftir helgi, enda hefði komið fram víðtækur stuðningur við tillöguna á fundinum í gær. Gangi það eftir má gera ráð fyrir að nauðasamningar geti farið fram í maí.

Egla er dótturfélag fjárfestingafélagsins Kjalars, sem er í eigu Ólafs Ólafssonar, sem oft er kenndur við Samskip. Kjalar á í deilum við Kaupþing um uppgjör framvirkra gjaldeyrissamninga. Kjalar vill að þeir séu miðaðir við gengi Evrópska seðlabankans í október á síðasta ári. Það er um helmingi hærra en það sem Seðlabanki Íslands notaðist þá við.

„Það liggur fyrir að Kjalar mun strax og fyrirtækið hefur mögulega á að fara í mál vegna þessara samninga,“ segir Kristinn. Hann segir að fái Kjalar kröfum sínum framgengt muni kröfuhafar í Eglu fá skuld sína greidda að fullu.

- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×