Innlent

Ljúka fleiri málum með sátt

Hægt verður að ljúka fleiri og alvarlegri málum með lögreglustjórasátt eftir að breyting á reglugerðum tók gildi. Breytingin ætti að leiða til þess að álag á dómstóla vegna minni háttar brota verði minna, segir Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari.

Það eru einkum umferðarlagabrot sem lögreglustjórar ljúka með sátt, og eingöngu ef sá sem brotið fremur samþykkir að fara þá leið, segir Valtýr. Brotin eru yfirleitt þannig að viðkomandi hefur verið staðinn að verki, til dæmis af lögreglumönnum í umferðareftirliti.

Fyrir breytinguna var hámarkssekt sem heimilt var að beita 300 þúsund krónur og hámarkstími ökuleyfissviptingar eitt ár. Eftir breytingarnar hafa hámörkin hækkað í 500 þúsund krónur og fjögurra ára sviptingu.

Það þýðir að hægt verður að ljúka til dæmis málum einstaklinga sem aka endurtekið, eða verulega, undir áhrifum áfengis eða undir áhrifum fíkniefna, án atbeina dómstóla. Þetta ætti einnig að stytta þann tíma sem tekur að ljúka málunum verulega og minnka kostnað þess sem brotið fremur.

Auk umferðarlagabrota er til dæmis hægt að ljúka minni háttar þjófnaðar- og auðgunarbrotum með lögreglustjórasátt, sem og minni háttar eignaspjöllum og minni háttar fíkniefnabrotum.- bj








Fleiri fréttir

Sjá meira


×